Saga bandaríska hafnaboltaleikarans Drew Robinson hefur snert við mörgum. Eftir að hafa mistekist að svipta sig lífi fann hann lífsneistann á nýjan leik og hefur hann núna deilt reynslu sinni í nýrri heimildarmynd ESPN.
Eftir að hafa eytt undanförnum mánuði einn á heimili sínu í miðjum kórónuveirufaraldri ákvað hann að stytta sér aldur. Hann hataði líf sig og þoldi ekki að enginn vissi hversu mikið hann hataði líf sitt, að því er kemur fram á vef ESPN.
„Ég vona að á endanum muni þið átta ykkur á því að vegna þess hversu mikið ég legg á mig til að fela þetta þá hefði enginn getað séð þetta fyrir og komið í veg fyrir þetta,“ skrifaði hann í sjálfsvígsbréfi sínu og bætti við að þetta væri engum öðrum að kenna.
Hann bað þær fimm manneskjur sem honum þótti mest vænt um afsökunar, eða þau Daiana, Darryl, Renee, Britney og Chad. Þrátt fyrir að þau þekktu hann best allra sáu þau ekki depurðina sem bjó innra með honum, heldur einungis ímynd hans sem atvinnumaður í hafnabolta, myndarlegur, heillandi, fyndinn og brosmildur.
Eftir að hafa ætlað að stytta sér aldur í bílnum sínum í apríl í fyrra hætti hann við og ók aftur heim á leið þar sem hann ákvað frekar að láta til skarar skríða.
Þannig endaði lífshlaup Robinsons þó ekki.
„Það er ástæða fyrir því að ég er hérna,“ sagði Robinson, skömmu fyrir síðustu jól, þakklátur fyrir að vera á lífi. Hann vill segja heiminum frá því hvað gerðist, bæði til að hann geti náð bata og mögulega hjálpað öðrum í leiðinni.
Hann veit að spurningarnar í tengslum við atburðinn eru margar, meðal annars hvernig hann gat haldið lífi í næstum heilan dag með stóra holu hægra megin á höfðinu eftir að hafa skotið sig í höfuðið og annað sár þar sem kúlan fór út hinum megin, án læknisaðstoðar.
„Ég átti að ganga í gegnum þetta,“ sagði Robinson. „Mér var ætlað að hjálpa fólki að komast í gegnum erfiðleika sem virðast óyfirstíganlegir. Þetta átti algjörlega að gerast, það er ekkert annað svar til í dæminu. Það er ekkert eðlilegt við þetta. Þetta átti að gerast,“ sagði hann og bætti við að núna sé hann frjáls. „Ég skaut sjálfan mig en drap egóið mitt.“
Í grein ESPN er því lýst þegar hann vaknaði upp á gólfinu, tók um höfuðið og reyndi að stöðva blæðinguna. Um fjórum tímum eftir að hann hafði látið skotið ríða af hélt hann enn að hann myndi deyja.
Í framhaldinu er rakinn uppvöxtur hans. Foreldrar hans skildu þegar hann var sjö ára en fljótt komu í ljós hæfileikar hans í hafnaboltanum. Þrátt fyrir það átti hann síðar í ástar- og haturssambandi við íþróttina.
Eftir að hafa fengið tækifæri til að spila á meðal þeirra bestu flakkaði hann á milli efstu og næstefstu deildar. Meiðsli áttu þátt í því. Þunglyndi fór að gera vart við sig og hann leitaði sér aðstoðar, auk þess sem hann las sjálfshjálparbækur. Eftir það skipti hann um lið í annað sinn og spilaði í næstefstu deild. Þunglyndið hélt áfram en í þetta sinn talaði hann ekki við neinn og hann hafði slitið trúlofun við kærustu sína. Á sama tíma gekk heimsfaraldurinn yfir og hann þurfti að loka sig af. Engar æfingar fóru fram og hann bjó einn í húsinu sínu í Las Vegas.
Næst víkur sögunni að því þegar Robinson situr í sama sófa og þegar hann skaut sig í höfuðið. Hann ákvað að hringja loksins í neyðarlínuna um miðja nóttina og biðja um aðstoð. Hann hafði ákveðið að hann vildi lifa áfram. „Ég skaut sjálfan mig í höfuðið,“ sagði hann, 20 klukkustundum eftir verknaðinn. Lögreglu- og sjúkrabílar brunuðu á vettvang og fluttu hann á slysadeild.
Í ljós kom að ekki var hægt að bjarga hægra auganu en hið vinstra slapp. Það þykir kraftaverk að hann skuli hafa lifað af. Núna fær hann reglulega sálfræðilega aðstoð og er duglegur við að stunda æfingar og hugleiða. Einnig notar hann geðlyf.
„Ég er ekkert með allt á hreinu en ég er að vinna í hlutunum,“ segir hann og bætir við að lykilatriði sé að vinna reglulega í sjálfum sér.
Hann hefur heitið sjálfum sér því að vera duglegur við að tala við fólk ef honum líður illa, sama hversu lítilfjörlegt það kann að vera.
„Segðu þeim það bara. Þau vilja heyra það. Fólk sem elskar þig vill heyra það og ef þú ert ekki með fólk í kringum þig sem elskar þig þá vill geðlæknirinn þinn eða sálfræðingurinn þinn heyra það. Fólk vill hjálpa þér. Atvinnufólk vill hjálpa þér. Það eru margir í heiminum sem vilja hjálpa fólki sem er að ganga í gegnum þessa hluti. Það gætu verið einhverjar sérstakar aðstæður sem fá þig til að líða eins og þú sért einn en þú ert aldrei einn,“ segir hann.
Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Einnig er hægt að leita til Píeta samtakanna og síminn opinn allan sólarhringinn og er 552-2218 og vefsíðan pitea.is.