Bandaríski skemmtigarðurinn Evermore hefur stefnt söngkonunni Taylor Swift en nýjasta plata söngkonunnar heitir sama nafni og skemmtigarðurinn. Þetta kemur fram á vef BBC.
Eigendur skemmtigarðsins sögðu útgáfu plötunnar hafa valdið ruglingi varðandi hvort skemmtigarðurinn og platan tengdust.
Eigendurnir bentu jafnframt á að það hefðu orðið „dramatísk frávik“ á umferð um síðu skemmtigarðsins í vikunni eftir að platan kom út.
Lögfræðingar Taylor Swift sögðu engan grundvöll vera fyrir kröfunni.
„Þar að auki hefur skjólstæðingur þinn ekki orðið fyrir tjóni af neinu tagi og hefur í raun og veru sagt það opinberlega að útgáfa plötu Swift skapi „markaðstækifæri“ fyrir skemmtigarð skjólstæðings þíns sem er í vanda,“ sögðu lögfræðingar Swift í bréfi sem lagt var fyrir dómstólinn.
Eigendur skemmtigarðsins, sem sækjast eftir milljónum dala í skaðabætur, segja vörumerkið tilheyra þeim og Swift hafi brotið gegn því þegar hún hóf sölu á plötutengdum varningi.
Taylor Swift kom aðdáendum sínum á óvart þegar hún gaf út plötuna Evermore í desember á síðasta ári en platan er sögð eins konar „systurplata“ Folklore, sem kom út í júlí 2020. Báðar plöturnar nutu mikillar velgengni og voru efstar á vinsældalistum um allan heim.