Skotin, brennd og barin til bana

Dominic Ongwen.
Dominic Ongwen. AFP

Alþjóðaglæpadómstóllinn (ICC) dæmdi Úgandamanninn Dominic Ongwen sekan um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu í dag.

Ongwen, sem er 45 ára, var herforingi í  And­spyrnu­her Drott­ins (LRA) og á hann m.a. að hafa haldið fólki í kyn­lífs­ánauð og safnað liði barna­her­manna. Hann var fundinn sekur um 61 ákærulið af 70 og er sá fyrsti sem er dæmdur sekur við ICC fyrir þvingaðar þunganir. 

Dómurinn dæmdi Ongwen sekan um að hafa fyrirskipað árásir á flóttamannabúðir sem herforingi í LRA en andspyrnuherinn var undir stjórn Joseph Kony sem talinn er hafa borið ábyrgð á hrottalegum glæpum í heimalandinu. Hann hefur verið á flótta í mörg ár. Kony stóð á bak við blóðuga baráttu í fjórum ríkjum Afríku þar sem hann ætlaði sér að koma á ríki sem byggði á boðorðunum tíu.

Hvíti maurinn

„Enginn vafi leikur á sekt hans,“ sagði forseti dómsins, Bertram Schmitt, þegar hann las upp dóminn í Haag í morgun.

Ongwen, sem er kallaður hvíti maurinn, var meðal annars dæmdur fyrir morð, nauðganir, kynlífsánauð og að hafa safnað liði barnahermanna en hann hóf feril sinn sem barnahermaður. Dómararnir höfnuðu hinsvegar beiðni verjenda Ongwen um að tillit yrði tekið til þess að hann væri sjálfur fórnarlamb þar sem LRA hefði rænt honum er hann var níu ára gamall. 

„Dómurinn veit að hann þjáðist mikið,“ sagði Schmitt. „Aftur á móti snýst þetta dómsmál um glæpi sem Dominic Ongwen ber ábyrgð á sem fullorðinn einstaklingur og herforingi í Andspyrnuher Drottins.“ 

Að sögn Schmitt leiddi rannsókn ekki í ljós að Ongwen glímdi við geðsjúkdóma af neinu tagi eða hann þvingaður til að fremja glæpina sem hann var ákærður fyrir. 

Kona í þorpinu Lukodi grætur þegar hún hlýðir á dómsuppkvaðninguna …
Kona í þorpinu Lukodi grætur þegar hún hlýðir á dómsuppkvaðninguna í útvarpi í dag. AFP

Mannúðarvaktin (Human Rights Watch) segir að dómurinn sé tímamótadómur í að ná fram réttlæti fyrir hönd fórnarlamba LRA. 

Það var Kony sem stofnaði LRA fyrir 30 árum en hann var kaþólskur altarisdrengur á sínum yngri árum. Sameinuðu þjóðirnar segja að LRA beri ábyrgð á dauða yfir 100 þúsund einstaklinga og brottnámi 60 þúsund barna. Ofbeldi LRA náði út fyrir landsteina Úganda til Súdan, lýðveldisins Kongó og Mið-Afríkulýðveldisins.

Ongwen fyrirskipaði hermönnum sínum að slátra íbúum í Lukodi, Pajule, Odek og Abok flóttamannabúðunum. Börn og mæður, með börn sín bundin á bakinu, voru meðal þeirra sem voru drepin að sögn Schmitt sem las upp nöfn þeirra.

„Almennir borgarar voru skotnir, brenndir og barðir til bana. Börnum var varpað inn í brennandi hús og einhver þeirra voru sett í polýþenpoka og barin til bana,“ sagði Schmitt.

Olanyia Mohammed náði að flýja fjöldamorðin en 15 úr fjölskyldu …
Olanyia Mohammed náði að flýja fjöldamorðin en 15 úr fjölskyldu hans voru drepnir af liðsmönnum LRA. AFP

 Ongwen var herforingi í Sinia-hersveitarinnar sem bar ábyrgð á að stúlkum var rænt og þær látnar þjóna sem kynlífsambáttir og vinnukonur hermanna. Á árunum 2002 til 2005 voru sjö þeirra þvingaðar til að þjóna Ongwen sem „svokallaðar“ eiginkonur. Tvær þeirra fæddu börn hans og var hann dæmdur fyrir þvingaða þungun.

Ongwen fyrirskipaði hermönnum sínum að krefjast þess af konum að þær skildu börn sín eftir í skóglendinu til þess að þær gætu borið meira af vistum fyrir hermennina. Tveggja mánaða barni var hent í ruslahaug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert