Búlgari lést á K2

Frá K2.
Frá K2. AFP

Búlgarskur fjallgöngumaður er látinn eftir að hafa fallið á K2, en hann er annar maðurinn til þess að láta lífið á fjallinu á aðeins þremur vikum.

Atanas Skatov var 42 ára og féll er hann var að skipta um reipi á leið sinn niður í grunnbúðir K2, að því er fram kemur í tilkynningu frá Seven Summit Treks, sem fór fyrir leiðangri mannsins.

Samkvæmt tilkynningunni mun eitthvað hafa farið úrskeiðis með þessum afleiðingum, en að nýlega hafi verið skipt um reipi í fjallinu og væru þau því í góðu standi.

Alpaklúbbur Pakistans hefur einnig staðfest andlát Skatovs og að þyrla pakistanska hersins hafi flogið með lík hans til borgarinnar Skardu.

Íslendingurinn John Snorri Sigurjónsson freistar þess að ná tindi K2 um þessar mundir og samkvæmt síðustu fregnum nálgast hann tind fjallsins. 

Fyrir tæplega þremur vikum lést Spánverjinn Sergi Minote í leiðangri sínum á K2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert