Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Ursula von der Leyen, varði í gær bóluefnastefnu sína og ESB en varaði um leið við að útlit væri fyrir frekari tafir og vandamál varðandi afhendingu á bóluefni við Covid-19.
Í viðtali við nokkra fjölmiðla í gær, þar á meðal La Croix og Süddeutsche Zeitung, viðurkenndi von der Leyen að Evrópa hefði getað brugðist hraðar við til að auka framleiðslugetuna.
„Í Evrópu stefnum við að því að búið verði að bólusetja 70% fullorðinna fyrir lok sumars,“ segir hún og að við stefnum í rétta átt að því markmiði.
Hún segir að það verði að sjálfsögðu aðrar hindranir og vandamál við framleiðsluna og jafnvel geti myndast skortur á ákveðnum hráefnum sem notuð eru við bóluefnaframleiðslu.
Von der Leyen játar einnig að hún hefði aldrei átt að nefna eða hugsa til þess að virkja ákvæði í brexit-samningum svo hægt yrði að koma í veg fyrir flutning bóluefnis yfir landamæri Írlands til Norður-Írlands. Þessi hótun framkvæmdastjórnarinnar var harðlega gagnrýnd í síðustu viku og hafnað af bæði yfirvöldum í Dublin og London.
Hún varði aftur á móti bólusetningarstefnu Evrópu en framkvæmdastjórnin hefur annast samningsgerð við lyfjafyrirtæki um kaup á bóluefni fyrir ríki ESB og EES. Ástæðan fyrir samstarfinu var að koma í veg fyrir harða samkeppni milli ríkja sem hefði þær afleiðingar að verð á bóluefni myndi rjúka upp og ríkari og stærri þjóðir myndu skilja fátækari og smærri þjóðir eftir úti í kuldanum. Ríki eins og Bandaríkin, Bretland og Ísrael hafa gert slíka samninga til að koma sér fram fyrir bóluefnabiðröðina í heiminum.
„Það sem ég átta mig á er ég horfi í baksýnisspegilinn er að við hefðum átt að hugsa meira um fjöldaframleiðslu og áskoranir sem henni fylgja,“ segir von der Leyen. Framleiðsluna hefði mátt auka fyrr og eins setja upp nýjar aðfangakeðjur.
„Nú erum við að vinna með iðnaðinum við að undirbúa fyrir möguleg afbrigði kórónuveirunnar sem eru fær um að verjast bóluefnum,“ segir forseti framkvæmdastjórnar ESB.
Það ríki Evrópu sem hefur náð að bólusetja flesta er Serbía en þar er búið að bólusetja yfir 450 þúsund íbúa af sjö milljónum undanfarnar tvær vikur. Helsta skýringin er sú að þar er bóluefni Sinopharm notað, ólíkt öðrum ríkjum Evrópu. Stjórnvöld í Serbíu hafa bæði gert bóluefnasamninga við Kína og Rússland ólíkt öðrum Evrópuþjóðum.
Í Serbíu er nú bólusett með bóluefnum frá Pfizer-BioNTech, Spútnik V og Sinopharm.