Gætu verið í lífsháska sökum kynhneigðar sinnar

Ramzan Kadyrov, leiðtogi Téténíu.
Ramzan Kadyrov, leiðtogi Téténíu. AFP

Tveimur samkynhneigðum karlmönnum hefur verið vísað frá Moskvu, höfuðborg Rússlands, og aftur til síns heima í héraðinu Tétsníu þar sem þeir gætu verið í lífsháska sökum kynhneigðar.

Tétsnía er þekkt fyrir að vera svæði þar sem hinsegin fólk er beitt gríðarlegu harðræði.

Samtök hinsegin fólks hjálpuðu mönnunum til Moskvu eftir að þeir voru pyntaðir af sérsveitarlögreglumönnum í Tétsníu í júní á síðasta ári. Þeir voru færðir í hald lögreglu að því er virðist að tilefnislausu.

Tim Bestsvet hjá samtökunum LGBT Network sagði í samtali við AFP að mennirnir hefðu verið handteknir í Moskvu og farið hefði verið með þá aftur til Gudermes, bæjar í Tétsníu.

„Þeir eru óttaslegnir og þreyttir,“ sagði Bestsvet.

„Allan tímann á meðan þeir voru í haldi var þrýst á þá um að afþakka alla lögfræðiaðstoð. Það hefur komið fyrir að einstaklingar, sem nutu hjálpar okkar og við fluttum burt frá héraðinu, hafi verið sóttir af fjölskyldum sínum í Tétsníu og dáið í kjölfarið, eða, skulum við frekar segja, líklega myrtir.“

Pyntaðir af yfirvöldum

Mennirnir tveir voru teknir höndum í Tétsníu, eins og fyrr segir, og voru pyntaðir af lögreglu þar. Samhliða pyntingum voru þeir látnir læra utanbókar vers úr Kóraninum og rússnesk og tétsensk þjóðlög, en flestir íbúar Tétsníu eru múslimar.

Tétsnía hefur um árabil verið gagnrýnd fyrir illa meðferð á hinsegin fólki. Árið 2017 stigu samkynhneigðir karlmenn fram og greindu frá pyntingum af hálfu yfirvalda. Árið 2019 greindu LBGT Network-samtökin frá fleiri tilfellum ofbeldisverka gegn hinsegin fólki af hálfu yfirvalda, þar á meðal tveimur morðum.

Ramzan Kadyrov, leiðtogi Tétsníu, hefur ætíð neitað ásökunum um ofsóknir í garð hinsegin fólks þar og segir að allir íbúar héraðsins séu gagnkynhneigðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert