Slökkva á netinu í Mjanmar

Lögreglumenn reyna að stemma stigu við síauknum mótmælum.
Lögreglumenn reyna að stemma stigu við síauknum mótmælum. AFP

Herforingjastjórnin í Mjanmar hefur nú nánast lokað fyrir netaðgang í landinu til að stemma stigu við sívaxandi mótmælaöldu. Á mánudag rændi mjanmarski herinn völdum og handtók Aung San Suu Kyi, leiðtoga landsins.

Gríðarleg mótmæli spruttu upp í kjölfarið og reyna lögreglumenn nú, gráir fyrir járnum, að stöðva mótmælin, að því er fram kemur í frétt BBC.

NetBlocks Internet Observatory, samtök sem fylgjast með aðgangi fólks að netinu, segja að nettenging í landinu sé aðeins 16% af því sem eðlilegt er.

Áður hafði verið lokað fyrir samfélagsmiðlana Facebook, Twitter og Instagram til þess að kveða mótmæli í kútinn og nýtti fólk sér þá sýndareinkanet (VPN) til þess að geta tengst netþjónum annarra landa. Nú er það nánast ekki lengur hægt.

Mannréttindasamtök á borð við Amnesty International hafa varað við því að íbúar Mjanmar gætu orðið varnarlausari fyrir mannréttindabrotum vegna þessa útspils herforingjastjórnarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert