Starfsmaður dýragarðs lést eftir að tígrisdýr sluppu

Sumatran tígrisdýr.
Sumatran tígrisdýr. AFP

Starfsmaður dýragarðs á Borneó-eyju lést eftir að tvö Súmötru-tígrisdýr sluppu úr garðinum. 

Tígrisdýrin, bæði kvenkyns, eru um 18 mánaða gömul. Þau sluppu úr Sinka-dýragarðinum í kjölfar þess að aurskriða féll á búr þeirra, en gríðarleg rigning hefur verið á eyjunni síðustu daga. 

Annað dýranna náðist fyrr í dag eftir að hafa orðið fyrir pílu með deyfilyfi. Hitt dýrið var skotið til bana þegar deyfilyfið reyndist ekki nægilegt. „Við óttuðumst að það færi í íbúðarhverfi í grenndinni. Þó að við gerðum okkar besta til að ná því á lífi setjum við öryggi manna í forgang,“ sagði Sadtata Noor Adrimahmanta, yfirmaður náttúruverndarsamtaka eyjunnar, við AFP. 

47 ára starfsmaður dýragarðsins fannst látinn nærri búri dýranna skömmu eftir að þau sluppu á föstudag. Á líki hans voru fjölmörg bit. Þá fundust fjölmörg önnur dýr, meðal annars apar, dauð nærri búrinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert