Versti fjarfundur faraldursins?

Jackie Weaver stóð í ströngu á umræddum fundi.
Jackie Weaver stóð í ströngu á umræddum fundi. Skjáskot

Fundur hreppsnefndar Cheshire-sýslu á Norður-Englandi hefur vakið gríðarlega athygli á samfélagsmiðlum. Hefur fundurinn, sem einkennist af mikilli óreiðu og frammíköllum, verið kallaður versti fjarfundur faraldursins. 

Upptaka af fundinum hefur farið eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla. Í upphafi virðist upptakan saklaus, nefndarmenn komnir saman skömmu fyrir jól að ræða málefni samfélagsins, en fljótlega verður fundurinn að því sem CNN lýsir sem stjórnlausum 80 mínútum af tæknivandræðum, öskrum og frammíköllum. 

„Þessi fundur hefur ekki verið boðaður í samræmi við lögin. Lögin hafa verið brotin,“ fullyrðir forseti nefndarinnar í upphafi fundarins, áður en honum er síðan gert að yfirgefa fundinn. 

Hreppsnefndir á Englandi sjá almennt um mál sem tengjast umhirðu bygginga og skrúðgarða. Á umræddum fundi hafði kona að nafni Jackie Waever verið fengin til að hafa umsjón með fundinum, en nefndarmenn höfðu staðið í deilum í lengri tíma líkt og upptaka af fundinum ber vitni um. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert