95% vernd tekur fjórar vikur

Hvergi eru bólusetningar komnar lengra en í Ísrael. Herferðin sem …
Hvergi eru bólusetningar komnar lengra en í Ísrael. Herferðin sem þar stendur yfir er í aðra rönd gerð í tilraunaskyni í samstarfi við Pfizer. AFP

Rannsókn ísraelskra vísindamanna á virkni bóluefnisins frá Pfizer og BioNTech í Ísrael hefur leitt í ljós að það tekur fjórar vikur eftir fyrstu sprautu að ná fram 95% vernd gegn veirunni.

Þá sýndi rannsóknin að meðalerfiðum og þungbærum tilfellum Covid-19 hjá sjúklingum eldri en 60 ára hefur fækkað mælanlega eftir að bólusetningar í stórum stíl hófust í landinu um miðjan janúar, jafnvel þó að fjöldi fólks smitist enn dag hvern.

Þegar fólk er bólusett með efni Pfizer og BioNTech eru því gefnir tveir skammtar með þriggja vikna millibili.

Samkvæmt niðurstöðum ísraelsku rannsóknarinnar fæst strax 50% vernd við sýkingu tíu dögum eftir fyrstu sprautuna.

Einni viku eftir seinni sprautuna er verndin orðin 95%, sem þýðir að samkvæmt þessu er með Pfizer-efninu unnt að koma á 95% vernd gegn veirunni nákvæmlega fjórum vikum eftir fyrstu sprautu.

Stóru spurningunni um hjarðónæmi ósvarað

Haft er eftir Ran Balicer, formanni sérfræðinganefndar ísraelskra stjórnvalda um málefni Covid-19, í Tagesspiegel, að ljóst sé að bóluefnið sé að draga úr alvarlegum veikindum af völdum veirunnar. Stóru spurningunni um hjarðónæmið sé þó enn ósvarað.

Ekk­ert ríki hef­ur bólu­sett hlut­falls­lega jafn­marga og Ísra­el. Um 3,4 millj­ón­ir Ísra­els­manna hafa verið bólu­sett­ar af þeim níu millj­ón­um sem þar búa. Þrátt fyr­ir skjótan ár­ang­ur í bólu­setn­ing­um grein­ast þó enn um 6.000 smit í land­inu á degi hverj­um.

Það magn sem Ísraelsmenn hafa fengið af bóluefni fá þeir, að sögn Tagesspiegel, meðal annars með því skilyrði að þeir veiti lyfjarisanum upplýsingar á borð við ofangreindar um virkni bóluefnisins. Í þeim skilningi eru fjöldabólusetningarnar í Ísrael framkvæmdar í tilraunaskyni í nánu samstarfi við framleiðandann.

Tagesspiegel, sem er meðal stærri blaða í Þýskalandi, gerir rannsókninni skil í þessari grein. Niðurstöður rannsóknarinnar hafa ekki enn birst í ritrýndu tímariti enda spánnýjar. Hér fjallar Haaretz nánar um umgjörð rannsóknarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert