George Shultz látinn 100 ára að aldri

George Shultz.
George Shultz. AFP

George Shultz, fyrrum utanríkisráðherra, fjármálaráðherra og atvinnumálaráðherra Bandaríkjanna, lést í gær 100 ára að aldri.

Shultz er einna frægastur fyrir að hafa komið á betri samskiptum milli Ronalds Reagan Bandaríkjaforseta og Gorbatsjov, aðalritara Sovétríkjanna, í tíð sinni sem utanríkisráðherra, og þannig hjálpað til við að binda enda á kalda stríðið. Shultz var viðstaddur leiðtogafundinn í Höfða árið 1986.

Ólafur Halldórsson handritafræðingur sýndi Shultz íslensku skinnhandritin í Árnastofnun í …
Ólafur Halldórsson handritafræðingur sýndi Shultz íslensku skinnhandritin í Árnastofnun í mars árið 1999. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

Hermaður, doktor og stjórnmálamaður

Shultz fæddist í New York-borg þann 13. desember árið 1920 og útskrifaðist úr Princeton-háskóla áður en hann gekk til liðs við bandaríska herinn. Hann barðist í síðari heimsstyrjöld og lauk doktorsprófi í hagfræði frá MIT-háskóla að stríði loknu.

Árið 1969 tók hann við embætti ráðherra atvinnumála í Bandaríkjunum í valdatíð Richards Nixon áður en hann var færður til í starfi árið 1970 og tók þá við stjórn hinnar nýstofnuðu fjárlagaskrifstofu forseta, einnig í valdatíð Nixons.

Því næst skipaði Nixon hann fjármálaráðherra árið 1972 og gegndi hann því starfi til 1974. Hann starfaði síðan ekki aftur fyrir Bandaríkjastjórn fyrr en í tíð Ronalds Reagan árið 1982, þá sem utanríkisráðherra. Hann gegndi þeirri stöðu til 1989.

Steingrímur Hermannsson, fyrrum forsætisráðherra, ræðir við Shultz, og Carrington lávarð, …
Steingrímur Hermannsson, fyrrum forsætisráðherra, ræðir við Shultz, og Carrington lávarð, fyrrum framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, í upphafi ráðherrafundar Nato í Reykjavík. Ljósmynd/Kristján Einarsson
George Shultz undirritar viljayfirlýsingu Bandaríkjanna og Sovétríkjanna að loknum tveggja …
George Shultz undirritar viljayfirlýsingu Bandaríkjanna og Sovétríkjanna að loknum tveggja daga fundi stórveldanna árið 1985. Reagan og Gorbatsjov fylgjast með. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert