Ísraelar aflétta sínu þriðja útgöngubanni

Fólk kemur saman að nýju í borginni Tel-Aviv í Ísrael.
Fólk kemur saman að nýju í borginni Tel-Aviv í Ísrael. AFP

Ísraelsk stjórnvöld afléttu í dag útgöngubanni sem gilt hefur í landinu frá því seint í desember, því þriðja síðan faraldurinn hófst. Rakarastofur og gistiheimili eru meðal þeirra sem leyft hefur verið að opna aftur.

Ekkert ríki hefur bólusett hlutfallslega jafnmarga og Ísrael og hafa smittölur undanfarinna daga verið á stöðugri niðurleið. Um 3,4 milljónir Ísraelsmanna hafa verið bólusettar af þeim níu milljónum sem þar búa. Þrátt fyrir hraðan og góðan árangur í bólusetningum greinast þó enn um 6 þúsund smit í landinu á degi hverjum.

„Ég lét mína viðskiptavini vita að við værum að opna að nýju. Við höfum fengið margar pantanir nú þegar og vonum að þessum kafla í sögu okkar sé nú lokið,“ hefur AFP eftir ísraelskum rakara.

Hefðbundnum verslunum var þó ekki leyft að opna en margar smærri verslanir hafa brugðið á það ráð að eiga sín viðskipti utandyra, fyrir framan verslanirnar, til þess að sveigja fram hjá sóttvarnareglum.

AFP náði tali af konu sem reyndi að eiga slík viðskipti, en hana vantaði nýja skó fyrir brúðkaup sonar síns á morgun.

„Það er bjartsýni í loftinu,“ sagði hún. „Ég held að núna sjáum við öll ljósið við enda ganganna. Vonandi var þetta seinasta útgöngubannið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert