Yfirvöld á Haíti sögðust undir kvöld hafa stöðvað tilraun til valdaráns í landinu.
Dómsmálaráðuneyti landsins segir að háttsettir embættismenn, þar á meðal háttsettur dómari og yfirmaður innan lögreglunnar, hafi reynt að ráða forseta landsins, Jovenel Moise, af dögum og að skotvopn hafi verið gerð upptæk við handtökur 23 tilræðismanna.
Mikil mótmæli hafa verið undanfarnar vikur í Port-au-Prince, höfuðborg landsins, vegna hatrammra deilna um hvenær forsetatíð Moise eigi að enda.
„Ég á líf mitt að þakka foringjum öryggissveita hér í höllinni. Markmið þessa fólks var að sýna mér banatilræði en þeirri áætlun var afstýrt,“ er haft eftir Moise forseta.
Moise hefur stýrt Haítí án þess að hirða mikið um stjórnskipan landsins og segir að forsetatíð hans taki enda eftir rétt ár. Stjórnarandstæðingar segja hins vegar að Moise fari með því á svig við stjórnarskrárákvæði og að forsetatíð hans hafi átt að taka enda í dag. Gríðarleg mótmæli hafa verið vegna þessa, eins og fyrr segir.
Bandaríkjastjórn viðurkenndi tilkall Moise til valda á dögunum og sagði að öldungadeild Bandaríkjaþings hvetji til friðsamlegra valdaskipta svo þing megi starfa með eðlilegum hætti að lýðræðislegum þingkosningum undangengnum.
Fréttin hefur verið uppfærð.