Tugþúsundir mótmælenda létu sjá sig í Jangún, höfuðborg Mjanmar, í dag eftir að herforingjastjórnin lokaði á netið í landinu eftir valdarán sitt.
„Við viljum ekki herræði,“ söng mótmælendahópurinn. Margir þeirra héldu uppi myndum af leiðtoganum Aung San Suu Kyi, sem var handsömuð af herforingjastjórninni, og klæddust rauðu til stuðnings stjórnmálaflokki hennar.
Aung San Suu Kyi hefur ekki sést síðan valdaránið átti sér stað fyrir rétt tæpri viku. Þó hefur netaðgangi borgara verið komið aftur á að hluta.
Netbanninu var komið á í gær þegar herinn lokaði á samfélagsmiðlana Facebook, Twitter og Instagram til að koma í veg fyrir að mótmælendur myndu safnast saman.
„Við munum halda halda kröfum okkar á lofti uns við fáum lýðræði,“ sagði mótmælandi við AFP-fréttastofuna. Hingað til hefur herinn ekki reynt að stöðva mótmælin í landinu, en fólk grunar að stutt sé í að hann sýni sig.
Mótmælin í dag eru þau stærstu síðan hin svokallaða Saffron-bylting átti sér stað árið 2007, en þá gerðu þúsundir munka uppreisn í landinu gegn herstjórninni.