Bóluefni AstraZeneca virkar illa gegn hinu suðurafríska afbrigði kórónuveirunnar og kemur ekki einu sinni í veg fyrir væg tilfelli af veikinni sem veirunni fylgir. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn. 1.200 skammtar af bóluefninu komu hingað til lands í gær.
Rannsóknin var framkvæmd af Witwatersrand-háskóla í Jóhannesarborg, en hún hefur ekki enn verið ritrýnd. AstraZeneca hefur þó svarað fyrir sig og segir ekki eina manneskju af þeim tvö þúsund sem þátt tóku í rannsókninni hafi þróað með sér alvarleg sjúkdómseinkenni.
„Það má vera að við lækkum ekki heildartölu yfir þá sem veikjast, en efnið er samt vörn gegn dauða, sjúkrahúsvist og alvarlegum sjúkdómum,“ segir Sarah Gilbert, en hún leiðir þróun bóluefnisins.
Í gærkvöld komu 1.200 skammtar af bóluefninu til landsins og von er á allt að 14 þúsund skömmtum í mánuðinum. Samningar Íslands og AstraZeneca gera ráð fyrir 230 þúsund skömmtum í heildina.
Bóluefni AstraZeneca hefur verið mikið þrætuepli síðustu vikur, sérstaklega á milli ensk-sænska fyrirtækisins og Evrópusambandsins, en ESB er óánægt með að dreifing efnisins hafi verið hægari en lagt var upp með í upphafi samningssambandsins.