Spænski skákborðaframleiðandinn Rechapados Ferrer segir að sala á skákborðum fyrirtækisins hafi margfaldast eftir að hin vinsæla þáttasería Queens Gambit, eða Drottningarbragð, var sýnd á Netflix-efnisveitunni.
Undanfarin ár hefur fyrirtækið framleitt að meðaltali um 20 þúsund skákborð en eftir sýningu þáttanna hefur fyrirtækið fengið um 40 þúsund pantanir á nokkrum mánuðum.
Rechapados Ferrer er í fjölskyldueigu og var stofnað árið 1950. David Ferrer rekstrarstjóri þakkar vinsældum þáttaraðarinnar þessa auknu sölu í samtali við The Guardian. „Á undanförnum tveimur til þremur mánuðum höfum við fengið um 40 þúsund pantanir sem er um tvöföldun á því sem við höfum verið að selja árlega,“ segir Ferrer.
Þá hefur einnig orðið ríflega tvöföldun í sölu á annars konar skákvarningi á vegum fyrirtækisins á borð við klukkur, taflmenn og bækur.