Maður sem sat fastur í vatns- og jarðvegsfylltum göngum í kjölfar flóðbylgjunnar í Himalajafjöllunum ásamt vinnufélögum sínum á laugardag segir þá ekki hafa haldið að þeir myndu lifa þetta af.
Enn er um 200 saknað og 18 dauðsföll hafa verið staðfest eftir að jökulbrot olli mikilli flóðbylgju í indverskum dal í norðurhluta Himalajafjallanna.
Rajesh Kumar var að störfum um 300 metra inni í göngum í dalnum og lýsir því fyrir fréttastofu AFP úr sjúkrarúminu hvernig þeir hafi heyrt einhvers konar flaut og svo hafi verið kallað og hrópað að þeir ættu að yfirgefa göngin. Hann hélt að um eldsvoða væri að ræða og hljóp af stað áður en vatn, jarðvegur og brak tók að flæða inn í göngin. „Þetta var eins og í Hollywood-mynd,“ segir Kumar.
Honum og vinnufélögum hans tókst að hanga á vinnupallafestingum og halda höfðinu fyrir ofan vatnsborðið í fjórar klukkustundir áður en vatnsborðið fór loks að lækka. Kumar segir þá hafa verið duglega að telja hug hver í annan og þakkaði guði fyrir að hendur þeirra hefðu ekki misst takið.
Vatnsborðið fór ekki niður fyrir einn og hálfan metra en þeir félagarnir gerðu tilraun til að vaða að gangaopinu og komu þá að litlu opi, sem Kumar segir þá þó ekki hafa vitað hvert leiddi, en þeir hafi fundið að ferskt loft kæmi þar í gegn.
Loks sáu þeir ljós í gegnum gatið og náði einn samstarfsfélaga hans símasambandi og hringdi á hjálp. Mönnunum var svo hjálpað í gegnum gatið litla og sluppu flestir að mestu ómeiddir þótt nokkrir hafi verið bornir í burtu á börum og einn þeirra dottið beint fram fyrir sig ofan í drulluna eftir að hafa fagnað frelsinu.