Leiðtogi valdaránsins í Mjanmar hefur reynt að réttlæta gjörðir sínar og herforingjastjórnarinnar í fyrsta sjónvarpsávarpinu sem hann birtir síðan herinn tók völdin í landinu fyrir viku.
Min Aung Hlaing hershöfðingi og valdamesti maður Mjanmar í herstjórninni sagði að kosningar sem fóru fram í landinu í nóvember hefðu ekki farið fram með viðeigandi hætti og segir ótal dæmi um kosningasvindl eftir að NLD, flokkur Aung San Suu Kyi, sópaði að sér atkvæðum.
Fjölmenn mótmæli hafa verið haldin í landinu undanfarna þrjá daga en herinn handtók Suu Kyi, þáverandi leiðtoga landsins.
Tugir þúsunda komu saman á götum stærstu borga Mjanmar í dag og mótmæltu herforingjastjórninni. Samkvæmt frétt BBC voru kennarar, lögfræðingar, bankamenn og ríkisstarfsmenn á meðal mótmælenda.
Einn mótmælenda sagði í samtali við fréttamann BBC að ungt fólk mótmælti af krafti. Það sætti sig ekki við einræðistilburði herforingjastjórnarinnar.
Einhverjir hafa slasast lítillega í mótmælunum og þá sprautuðu hermenn vatni á mótmælendur í einni borginni. Herinn notaði enn fremur ríkismiðil landsins til að vara fólk við mótmælum.