Hraða framleiðsluferlinu um helming

Evrópskar höfuðstöðvar lyfjafyrirtækisins Pfizer í Belgíu.
Evrópskar höfuðstöðvar lyfjafyrirtækisins Pfizer í Belgíu. AFP

Lyfjarisinn Pfizer ráðgerir að framleiðslutími bóluefnis gegn kórónuveirunni verði um helmingi styttri hér eftir. Fram til þess hefur framleiðslan tekið um 110 daga, en með skilvirkari ferlum verður hún um 60 dagar. Frá þessu greina forsvarsmenn fyrirtækisins í viðtali við USA Today. 

Mun þetta koma til með að hraða bólusetningu um heim allan auk þess að losa um flöskuhálsa víða þar sem skortur er á bóluefni. Verkefnið gengur undir heitinu „ljóshraði“ og er ástæða fyrir því að sögn Chaz Calitri, varaforseta hjá Pfizer. „Bara í síðasta mánuði tvöfölduðum við framleiðsluna,“ var haft eftir Chaz.

Vísaði hann þar til einnar verskmiðju fyrirtækisins í Michigan, en alls eru verksmiðjunnar þrjár talsins. Að því er fram hefur komið í viðtölum við stjórnendur Pfizer mátti búast við auknum afköstum á þessu ári. Er það sökum þess að með aukinni þekkingu á framleiðsluferlinu og bóluefninu verða til tækifæri til að flýta framleiðslunni. 

Samtals hefur lyfjarisinn dreift nær 21 milljón skammta af bóluefni gegn kórónuveirunni. Vonir eru bundnar við að búið verði að afhenta um 50 til 60 milljónir skammta í mars. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert