Mótmælendur hafi sjálfir skipulagt innrásina

Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti.
Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti. AFP

Lögmenn Donalds Trump segja mótmælendur hafa farið inn í þinghúsið á Kapítolhæð að eigin frumkvæði í óeirðunum þar 6. janúar á þessu ári.

Forsetinn fyrrverandi sé þannig ekki sekur um að hafa hvatt til þess. Lögmenn hans segja jafnframt að tilraun demókrata til þess að fá Trump dæmdan fyrir embættisbrot, eftir að hann er kominn úr embætti, sé brot á stjórnarskrá.

Réttarhöld hefjast í öldungadeild þingsins á morgun. Trump hefur sagst ekki munu bera vitni. Málflutningur lögmanna hans er í raun það sem vænta má frá þeim þegar afgreiðsla málsins hefst.

Á meðal þess sem kemur fram hjá þeim er ítrekun um að skjöl frá FBI sýni að innrásin í þinghúsið hafi verið skipulögð mörgum dögum fyrir fram, þannig að orð forsetans geti ekki hafa hrundið henni af stað samdægurs.

Trump er eini forsetinn í sögu Bandaríkjanna til að hafa tvisvar verið kærður fyrir embættisbrot og sá þriðji til að vera kærður yfirleitt.

Frétt BBC um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert