Tæknijöfur gefur ríflega helming auðæfa sinna

Kim Beom-su hyggst gefa stóran hluta eigna sinna.
Kim Beom-su hyggst gefa stóran hluta eigna sinna. AFP

Suðurkóreskur auðkýfingur að nafni Kim Beom-su hefur tilkynnt að hann muni gefa yfir helming auðæfa sinna. Er ekki um neitt smáræði að ræða þar sem eignir mannsins eru metnar á 9,4 milljarða dollara eða því sem nemur ríflega 1.200 milljörðum íslenskra króna.

Haft er eftir honum á AFP-fréttastofunni að hann vilji að peningarnir verði notaði til félagslegrar uppbyggingar.

Auðæfi Kim Beom-su eru til komin vegna hönnunar á fjölda tæknilausna í símum og þeirra á meðal er hann sagður hafa hannað skilaboðaforrit sem notað er af um 90% Suður-Kóreubúa. Þá er fyrirtæki hans sagt eitt af þeim sem grætt hefur hvað mest á veirufaraldurstímum vegna aukinnar tækninotkunar. 

Þykir tilkynningin til marks um breytta hugsun meðal þeirra allra ríkustu. Þegar hafa Bill og Melinda Gates auk Warren Buffet tilkynnt að þau hafi eða hyggist gefa stóran hluta eigna sinna.

Raunar hafa um 200 af allra ríkustu manneskjum heims heitið því að gefa stóran hluta auðæfa sinna. Slíkt hefur þó ekki átt upp á pallborðið hjá auðkýfingum í Suðaustur-Asíu. Er Kim Beom-su sá fyrsti í Suður-Kóreu til þess að lofa slíkri gjörð en í landinu búa fjölmargir milljarðamæringar sem hafa hagnast á tæknigeiranum sem er öflugur í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert