Það er „mjög líklegt“ að kínversk stjórnvöld hafi framið þjóðarmorð á Úígúrum, samkvæmt sérfræðingi í málefnum þeirra.
Í nýbirtu sérfræðiáliti hans í Bretlandi kemur fram að sannanir séu fyrir því að ríkið hafi staðið á bak við áætlun um að láta þennan minnihlutahóp múslima í norðvesturhluta Kína hverfa, að sögn BBC.
Meðal annars hafi verið reynt að skaða þá Úígúra sem hafa verið í haldi, reynt hafi verið að koma í veg fyrir að konur eignist börn, þar á meðal með þungunarrofi, og að börn hafi verið flutt á brott með valdi.
Fram kemur einnig í álitinu að líklegt sé að Xi Jinping, forseti Kína, beri sjálfur ábyrgð á glæpum gegn mannkyni. Þar segir að „náin aðkoma Xi Jinping“ í aðförinni gegn Úígúrum geti stutt það að höfðað verði mál gegn honum vegna þjóðarmorðs.