Borgarstjóri hunsar sóttvarnareglur

Borgarstjórinn í Perpignan, Louis Aliot, ræddi við fréttamenn í Hyacinthe-Rigaud …
Borgarstjórinn í Perpignan, Louis Aliot, ræddi við fréttamenn í Hyacinthe-Rigaud safninu í morgun. AFP

Borgarstjórinn í Perpignan ákvað að hætta að hlýða fyrirmælum ríkisstjórnar Frakklands og opnaði söfn borgarinnar þrátt fyrir að sóttvarnareglur kveði á um að öll söfn landsins eigi að vera lokuð.

Borgarstjórinn í Perpignan, Louis Aliot, er varaformaður þjóðernisflokksins Rassemblement National sem áður hét Front National. Aliot segir að Frakkar þurfi á menningunni að halda þrátt fyrir Covid-19. Hann ræddi við fréttamenn í morgun er hann ákvað að opna fjögur söfn borgarinnar sem hafa verið lokuð frá 30. október. „Það er veira og hún verður meðal vor í langan tíma. Það eru til meðferðir, það er til bóluefni, það eru varúðarreglur sem við getum beitt. Venjum okkur við þetta ástand og byrjum á þessu,“ sagði Aliot við blaðamenn í Hyacinthe-Rigaud-listasafninu.

AFP

Mikil þreyta er farin að grípa um sig meðal Frakka sem þyrstir í menningu og menningartengda atburði eftir margra mánaða lokun. Engar listasýningar, kvikmyndasýningar, leikhús eða lifandi skemmtanir síðan í lok október.

Á fyrstu 15 mínútunum höfðu rúmlega 50 gestir mætt í Hyacinthe-Rigaud-safnið í morgun. Tvö önnur söfn opnuðu í morgun og fjórða safnið verður opnað á morgun. 

AFP

Í gær fór ríkið með málið fyrir rétt til að reyna að koma í veg fyrir að söfnin yrðu opnuð í Perpignan. Menningarmálaráðherra Frakklands, Roselyne Bachelot, hét því í gær að söfn og opinberir minnisvarðar verði fyrstu menningarstofnanirnar sem opni þegar byrjað verður að aflétta hömlum. En það verði ekki fyrr en smitum fari að fækka.  

Bachelot segist hafa rætt við 30 safnstjóra og þeir hafi verið opnir fyrir hugmyndinni um að heimila aðeins örfáum gestum að koma í söfnin þegar það verður. Í síðustu viku skrifuðu hundruð einstaklinga sem starfa innan menningargeirans undir bænaskrá til stjórnvalda um að heimila listasöfnum að opna að nýju. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert