Engin gögn liggja fyrir sem geta sýnt fram á með óyggjandi hætti að kórónuveiran hafi verið farin að dreifa sér í kínversku borginni Wuhan fyrir desember 2019. Þetta kemur fram í sameiginlegri rannsókn kínverskra vísindamanna og vísindamanna á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO).
„Það er ekkert sem bendir til þess að Sars-Cov-2 hafi verið að smitast á milli almennings á tímabilinu fyrir desember 2019,“ sagði Liang Wannian, sem stýrði rannsókn kínversku vísindamannanna, á blaðamannafundi í dag. Hann bætti við að ekki væru fyrir hendi fullnægjandi sönnunargögn sem sýnt geti fram á að veiran hafi breiðst út í borginni fyrir þann tíma. Ekki er þó hægt að útiloka að veiran hafi verið búin að skjóta upp kollinum annars staðar fyrir þann tíma.
Sérfræðingar WHO sögðu jafnframt á blaðamannafundinum afar ólíklegt að nokkuð sé til í umdeildri kenningu um að Covid-19 eigi rætur að rekja til kínverskrar rannsóknarstofu í borginni Wuhan.
„Tilgátan um atvik sem hafi komið upp á rannsóknarstofu er afar ólíkleg útskýring á því hvernig veiran barst út og dreifðist á meðal fólks,“ sagði Peter Ben Embarek, sem stýrði rannsókn WHO.
„Þetta er þar af leiðandi tilgáta sem við munum ekki leggja til að byggt verði á í öðrum rannsóknum,“ bætti Embarek við.
WHO greindi einnig frá því að dýrið sem talið er að hafi borið með sér veiruna hafi enn ekki fundist. Alls hafa 2,3 milljónir manna látist af völdum veirunnar á heimsvísu.