Sveitir herforingjastjórnarinnar í Mjanmar hafa gripið til þess að skjóta á mótmælendur með gúmmíkúlum og beita táragasi til að brjóta upp mótmælin sem hafa nú geisað víða um landið í fjóra sólarhringa þrátt fyrir bann herforingjastjórnarinnar við samkomum með fleiri en fimm einstaklingum.
Í myndskeiði AFP-fréttaveitunnar sjást fjölmenn mótmæli og viðbrögð öryggissveitanna.
„Við viðurkennum þau [herforingjastjórnina] ekki sem opinber stjórnvöld þar sem U Win Myint er réttkjörinn leiðtogi. Við munum streitast gegn lagasetningu herforingjastjórnarinnar með einum eð öðrum hætti,“ segir Myint Thein Oo sem er liðsmaður í NLD-flokknum sem var með völd fyrir valdarán herforingjastjórnarinnar fyrir rúmri viku.
Íbúi í Naypyidae, höfuðborginni sem fyrri herforingjastjórn reisti, segir lögreglu hafa skotið á mótmælendur með gúmmíkúlum áður en kraftmiklum vatnsbyssum var beitt á fjöldann. Einhverjir hafi jafnframt særst.
Hundruð þúsunda eru sögð hafa mótmælt á götum út í gær sem varð til þess að hershöfðinginn Min Aung Hlaing flutti ávarp þar sem hann réttlætti það að herinn hefði seilst til valda á sama tíma og hann kynnti útgöngubann eftir myrkur.