Indverskar björgunarsveitir leita í kappi við tímann að fólki sem er enn saknað eftir gríðarmikið flóð í Himalajafjöllum á norðurhluta Indlands á sunnudag. Talið er að flóðið hafi farið af stað þegar stórt stykki brotnaði úr jökli og féll í á. Flóðið flæddi í gegnum dal í Uttarakhand-ríki. Enn er 150-170 manns saknað en flestir þeirra voru við störf við tvær virkjanir á svæðinu. 28 hafa fundist látnir.
Enginn veit hvað það var nákvæmlega sem olli flóðinu. Sérfræðingar segja þó mögulegt að stórt jökulbrot hafi brotnað frá jöklinum, sem gæti verið rakið til hækkunar í hitastigi, svo gífurlegt magn vatns braust út. Það gæti hafa valdið snjóflóðum sem bera með sér bæði steina og leðju.
Einhverjir þeirra sem er saknað lokuðust inni í göngum í Tapovan en göngin fylltust af leðju og grjóti þegar flóðbylgjan fór yfir. Tólf var bjargað á lífi út úr göngunum á sunnudag en 34 eru enn lokaðir inni við enda ganganna. Hundruð tóku þátt í aðgerðunum í nótt og hefur þeim tekist að grafa sig 120 metra inn í göngin.