Norska utanríkisráðuneytið hefur framlengt ferðaráðin svokölluðu til 15. apríl, en með þeim er landsmönnum ráðlagt að leggja ekki í nein ferðalög út fyrir landsteinana nema brýna nauðsyn beri til og hafa ferðaráðin verið í gildi síðan í fyrra með reglulegum framlengingum.
„Farsóttarástandið á heimsvísu, nýjar aðgerðir sem tengjast stökkbreyttum afbrigðum veirunnar, ráðrúm heilbrigðiskerfa mismunandi landa og ferðatakmarkanir þeirra eru þeir þættir sem liggja ákvörðun ríkisstjórnarinnar til grundvallar,“ segir í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu auk þess sem eftirfarandi er haft eftir Ine Eriksen Søreide utanríkisráðherra:
„Þrátt fyrir að við höfum glímt við faraldurinn í eitt ár erum við enn sem komið er langt frá eðlilegu ástandi og staða farsóttarinnar víða um heim er síbreytileg.“
Í tilkynningunni er auk þess bent á að nokkur lönd hafi gripið til stífari reglna í ljósi ískyggilegs ástands og taki nýjar reglur oftar en ekki gildi með skömmum fyrirvara. Slíkar reglur, auk takmarkaðs framboðs á flugi, geti komið Norðmönnum á ferðalagi í koll og tekur ráðuneytið sérstaklega fram, að í sumum ríkjum kunni aðstoð sendiráða og ræðismanna Noregs við norska þegna að skerðast vegna ástandsins.
Undantekningar frá ferðaráðunum eru teknar til skoðunar vikulega og eins og staðan er nú telst Norðmönnum aðeins óhætt að ferðast til Íslands, Færeyja, Grænlands og nokkurra svæða í Finnlandi og ná ferðaráðleggingarnar því ekki til þeirra staða.
Að lokum bendir ráðuneytið á, að allir sem hyggi á ferðalög utan verði að meta nauðsyn ferðalagsins auk þess að kynna sér ástandið og þær reglur sem gilda fyrir ferðamenn á áfangastaðnum.