Her tölvuþrjóta frá Norður-Kóreu stal ríflega 300 milljónum bandaríkjadala frá fjármálastofnunum víða um heim yfir eins árs tímabil. Tímabilið sem um ræðir var frá nóvember árið 2019 til nóvembermánaðar síðasta árs. Þetta kemur fram í leynilegri skýrslu Sameinuðu þjóðanna sem lekið var til CNN.
Talið er að fjármunirnir hafi verið hafi verið nýttir til að greiða fyrir kjarnorkuvopn auk fjárfestinga til að halda efnahag landsins á floti. Að því er segir í skýrslunni er talið að upphæðin sé í kringum 316 milljónir dala, eða ríflega 41 milljarður króna.
Í skýrslunni kemur fram að fjármálastofnanir á Vesturlöndum hafi orðið fyrir barðinu á tölvuþrjótunum. Með fjármagninu tókst ríkisstjórninni þar í landi að halda kjarnorkuverkefni sínu gagnandi auk þess að uppfæra vopnasafn sitt.
Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa lengi unnið að þróun kjarnorkuvopna og gera má ráð fyrir að umræddur þjófnaður sé liður í því. Ekki er ljóst hversu langt þróunin er komin en sérfræðinga greinir á um hversu öflugt vopnabúr landsins er.
Í skýrslunni er vísað í nokkra ónefnda heimildarmenn sem segja að fjárhagur Norður-Kóreu sé nú í molum í kjölfar faraldurs kórónuveiru. Lítill sem enginn útflutningur hefur verið á kolum, sem jafnan er helsta útflutningsvara landsins. Þá eru öll viðskipti í lágmarki þar sem landið hefur lokað sig af til að verjast veirunni.
Til að halda kjarnorkustarfseminni gangandi hafa stjórnvöld þar í landi leitað til Írans. Talið er að löndin eigi í nánu samstarfi og sendi sín á milli hluti sem nauðsynlegir eru til að þróa kjarnorkuvopn. Bæði löndin reyna nú að byggja upp kjarnorkuvopnabúr. Stjórnvöld í Íran hafa neitað samvinnu milli landanna.