Réttarhöld yfir Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, hefjast í öldungadeild Bandaríkjaþings í dag klukkan 18 að íslenskum tíma.
Trump er sakaður um að hafa hvatt til uppreisnar í tilraun til að snúa við ósigri sínum í forsetakosningunum.
Mál saksóknara Demókrataflokksins mun að miklu leyti byggjast á myndbandsupptökum, meðal annars af Trump að kynda undir reiði stuðningsmanna sinna vegna ósigurs síns gegn Joe Biden í kosningunum í nóvember og halda því fram að svindl hafi átt sér stað.
Í framhaldinu ruddist æstur múgur inn í bandaríska þinghúsið en myndir eru einnig til af því.
Fram kemur í fréttaskýringu AFP að upptökurnar muni reynast erfiðar áhorfs fyrir þingmenn, þar á meðal marga repúblikana sem hafa lýst því yfir að þeir vilja ekki sakfella Trump. Engu að síður þurftu þeir að flýja í öruggt skjól eftir að múgurinn ruddist inn í þinghúsið.
Rúmum mánuði eftir atburðinn hafa þúsundir þjóðvarðliða enn eftirlit með þinghúsinu og hafa stórar girðingar verið settar upp svo almenningur komist ekki nálægt því.
Trump verður fyrsti Bandaríkjaforsetinn í sögunni sem tvívegis er sóttur til saka fyrir embættisbrot. Hann var sýknaður af slíku broti árið 2020. Trump verður einnig sá fyrsti í sögunni til að koma fyrir rétt eftir að hafa horfið á brott úr embætti.
Demókratar ráða yfir 50 þingsætum af 100 á þinginu. Auk þess getur Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, greitt atkvæði. Þörf er á tveimur þriðju hlutum atkvæða til að sakfella Trump, sem þýðir að að minnsta kosti 17 repúblikanar þurfa að greiða atkvæði með sakfellingu.