Tvö ný afbrigði af Covid-19 hafa greinst undanfarið á Englandi, sem þarlendir vísindamenn fylgjast sérstaklega vel með vegna ótta um að þau séu eins smitandi og B.1.1.7-afbrigðið (sem stundum hefur verið nefnt breska afbrigðið).
Annað afbrigðið sem nú er fylgst með er raunar stökkbreytt útgáfa af B.1.1.7, að sögn Spiegel. Það greindist fyrst í Bristol. Heilbrigðisráðuneytið breska sendi í gær frá sér tilkynningu um að þetta afbrigði væri talið sérstakt áhyggjuefni, enda gætu í því runnið saman hættulegir eiginleikar B.1.1.7 og annarra afbrigða.
Hitt afbrigðið fannst fyrst í Liverpool, sem minna er vitað um. Það er nú til rannsóknar.
Saman hafa greinst 76 tilfelli þessara tveggja afbrigða.
Stökkbreytingum (nýjum eiginleikum) í ólíkum afbrigðum veirunnar eru gefin heiti. Ein stökkbreyting heitir E484K og hana er að finna í erfðaefni suðurafrísku og brasilísku afbrigðanna.
Samkvæmt Spiegel er talið að þessi stökkbreyting geti aukið möguleika veirunnar á að valda veikindum hjá fólki sem þegar hefur fengið Covid-19 eða bólusetningu við sjúkdómnum.
B.1.1.7 hefur ekki verið talið geyma þessa stökkbreytingu en er talið meira smitandi en önnur afbrigði vegna annarra stökkbreytinga. Fyrstu athuganir benda þó til þess að fólk með bólusetningu frá AstraZeneca eða Pfizer sé sannarlega ónæmt fyrir þessu afbrigði.