Útgöngubann framlengt til 2. mars

Dam-torg í miðborg Amsterdam á sunnudag.
Dam-torg í miðborg Amsterdam á sunnudag. AFP

Hollenska ríkisstjórnin tilkynnti í gær um að útgöngubann yrði framlengt til 2. mars en þegar útgöngubannið var sett í síðasta mánuði brutust út alvarlegustu óeirðir í landinu í fjóra áratugi.

Útgöngubannið gildir frá klukkan 21 að kvöldi til 4:30 að morgni og er þetta í fyrsta skipti sem útgöngubann er sett í Hollandi frá því í seinni heimsstyrjöldinni.

Mark Rutte forsætisráðherra segir að nauðsynlegt sé að framlengja bannið vegna þeirra bráðsmitandi afbrigða Covid-19 sem hefur vaxið fiskur um hrygg í landinu að undanförnu. 

Yfir 95% þjóðarinnar fara eftir banninu sem hefur gilt frá 23. janúar og eins takmarkanir á heimsóknum en aðeins einn má koma í heimsókn á dag. Jafnframt er bann í gildi hvað varðar flugferðir til og frá nokkrum löndum. 

Í síðustu viku framlengdi hollenska ríkisstjórnin aðrar sóttvarnareglur til 2. mars. þar á meðal lokun bara, veitingastaða og verslana sem ekki selja nauðsynjavöru. Aftur á móti máttu flestir grunnskólar hefja starfsemi að nýju í gær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert