Kvíðnir einangrast í heimadrykkju

Þriðjungur Norðmanna kveðst drekka minna áfengi síðan heimsfaraldurinn hófst, ef …
Þriðjungur Norðmanna kveðst drekka minna áfengi síðan heimsfaraldurinn hófst, ef marka má könnun um áfengisvenjur 30.000 manns í Noregi. Hjá 13 prósentum hefur drykkja hins vegar aukist og er þar oft um að ræða fólk sem situr eitt heima við vinnu eða nám, glímir við heilsubrest, einmanaleika eða fjárhagslegar áskoranir. AFP

Þriðjungur Norðmanna, þar á meðal ungmenni, kveðst drekka minna áfengi í heimsfaraldrinum en fyrir hann á meðan 13 prósent þjóðarinnar segjast hafa aukið drykkju sína frá því faraldurinn hófst.

Þessar niðurstöður eru meðal þeirra sem könnun Silje Mæland, aðstoðarprófessors við Stofnun um hnattræna heilsu og samfélagslæknisfræði (n. Institutt for global helse og samfunnsmedisin) við Háskólann í Bergen, leiddi í ljós þegar hún spurði 30.000 Norðmenn um drykkjuvenjur á kórónutímum, en samstarfsaðilar Háskólans í Bergen við könnunina voru Helse Bergen og Lýðheilsustofnun Noregs, FHI.

Meðal hópsins sem meira samneyti hefur haft við Bakkus, þrettán prósentanna, hafði mest kveðið að aukinni drykkju hjá svarendum sem glíma við heilsubrest, einmanaleika og fjárhagsvandræði, eftir því sem Mæland og samstarfsaðilum hennar var greint frá.

Silje Mæland, aðstoðarprófessor við Stofnun um hnattræna heilsu og samfélagslæknisfræði …
Silje Mæland, aðstoðarprófessor við Stofnun um hnattræna heilsu og samfélagslæknisfræði við Háskólann í Bergen, segir sumar niðurstöður hennar og samstarfsfólks hennar jákvæðar, aðrar séu umhugsunar- og jafnvel áhyggjuefni. Ljósmynd/Aðsend

„Það sem einkum vekur okkur til umhugsunar eru þær niðurstöður að þeir, sem mestan kvíðboga bera, leiti mest í áfengið,“ segir Mæland við norska ríkisútvarpið NRK. „Þetta er fólk sem á við ramman reip að draga fjárhagslega eða er einangrað við vinnu eða nám heima hjá sér. Við sjáum sterka fylgni milli aukins kvíða og aukinnar drykkju.“

Minni drykkja samkvæmisfólks

Kveður Mæland langar raðir að dyrum norskra áfengisverslana, sem sést hafa í myndefni fjölmiðla upp á síðkastið, merki um að fólk hamstri áfengi og búi sig undir framhald einsemdarinnar sem hjá mörgum hefur verið einkennandi fylgifiskur kórónuveirunnar um heim allan.

Ef marka má svör þátttakenda í rannsókninni hefur áfengisneysla einkum dregist saman hjá þeim hópi fólks, sem fyrst og fremst drekkur í tengslum við skemmtanir og samkomur – og skyldi ef til vill engan undra. Af 30.000 svarendum tilheyrir þriðjungur þessum hópi og er yngra fólk þar áberandi.

„Þetta er auðvitað jákvæð niðurstaða,“ segir Mæland, „en á hinn bóginn má líta til þess að nú verður aukinnar drykkju vart hjá nýjum hópi, sem er fólk á aldrinum 30 til 39 ára,“ bætir hún við.

Þegar litið er til aldurs er það fólk á aldrinum 60 til 69 ára sem mest drekkur, sá aldurshópur drekkur að meðaltali 3,7 áfengiseiningar á viku, en með áfengiseiningu er átt við tólf grömm af vínanda, magn sem svarar til eins lítils bjórs (33 cl) að styrkleika 4,5% eða lítils vínglass (12,5 cl) þar sem vínið er 12% að styrk.

Til samanburðar nemur áfengisneysla aldurshópsins 18 til 29 ára 3,3 áfengiseiningum á viku, en í þeim hópi er meira um fólk sem drekkur sjaldan en þá meira magn í hvert skipti.

Óháð aldurshópum drekka norskir karlmenn meira en kvenkyns landar þeirra.

Önnum kafnir ráðgjafar

Rannsóknin var framkvæmd í maí í fyrra, í árdaga kórónufaraldursins ef svo má segja, og búa Mæland og félagar sig nú undir að hleypa framhaldsrannsókn af stokkunum þar sem leitað verður svara við því hvort sömu tilhneiginga við meðferð áfengis gæti enn hjá sömu aldurs- og þjóðfélagshópum.

Upplifun þeirra sem starfa við umönnun og aðstoð við vímuefnaneytendur endurspeglar að nokkru leyti niðurstöður könnunarinnar. Að sögn Else Kristin Utne Berg, yfirráðgjafa hjá KoRus Vest, sem er ráðgjafarmiðstöð um vímuefnaneyslu og umönnun vímuefnasjúklinga, hefur hennar starfsfólk aldrei verið eins önnum kafið og nú við að sinna skjólstæðingum sem leita til miðstöðvarinnar vegna áfengisvandamála.

„Þetta er áhyggjuefni, það mun meðferðartölfræði frá þessum tíma sýna okkur er fram líða stundir,“ segir Berg. Hún segir oft líða nokkurn tíma þar til fólk sjái afleiðingar breyttra drykkjuvenja svart á hvítu. „Að sitja heima og drekka er ekki gott, hvorki fyrir lýðheilsu né einstaklinginn sjálfan,“ segir ráðgjafinn um þróunina í áfengisnotkun Norðmanna frá upphafi kórónuveirufaraldursins.

NRK

Fjordabladet

Matindustrien

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert