Langt þar til taka má niður grímuna

Anthony Fauci, sóttvarnasérfræðingur ríkisstjórnarinnar.
Anthony Fauci, sóttvarnasérfræðingur ríkisstjórnarinnar. AFP

Ólíklegt verður að teljast að hægt verði að leggja grímunni alfarið á næstunni í Bandaríkjunum. Þar skiptir engu hvort fólk hafi verið bólusett gegn kórónuveirunni. Þetta segir Anthony Fauci, sóttvarnalæknir Bandaríkjanna. 

Í viðtali við sjónvarpsstöðina Fox News greindi Fauci frá því að bólusetja verði 70% til 85% fullorðinna vestanhafs til að hjarðónæmi náist. Ef vel tekst til og slíkt hlutfall næst má búast við því að nægileg vernd hafi myndast í samfélaginu. 

Að hans sögn er langt þangað til svo verður. „Þegar við verðum búin að bólusetja svona marga getum við farið að aflétta þessum takmörkunum og grímuskyldunni. En við erum svo sannarlega langt frá því að vera komin þangað núna,“ sagði Fauci og hélt áfram:

„Ef allt gengur að óskum og við náum tökum á faraldrinum munum við huga að því að létta á þessum reglum. Við erum að horfa til þess að það verði seint í haust, en það skal tekið fram að það er alls ekki öruggt að svo verði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert