Sífellt erfiðara er að ná því markmiði að bólusetja alla fullorðna Svía við kórónuveirunni fyrir mitt næsta sumar.
Þetta sagði Anders Tegnell, sóttvarnalæknir Svíþjóðar, í samtali við Dagens Nyheter eftir að fregnir bárust af töfum á bóluefni Moderna.
„Það er orðið erfiðara. Því meira sem sendingum seinkar því meira þarf að gera á tiltölulega stuttum tíma í lok apríl og í maí,“ sagði hann. „Spurningin er hvort þetta náist þegar tímapressan er orðin svona mikil. Það verður erfiðara og erfiðara,“ bætti hann við en sagði það enn mögulegt.
138 dauðsföll af völdum Covid-19 voru skráð í Svíþjóð síðasta sólarhringinn. Þar með hafa 12.326 látist af völdum veirunnar.
Alls hafa 600.244 manneskjur smitast í Svíþjóð af Covid-19 og er það aukning um rúmlega fjögur þúsund frá því í gær.