Lögmaður frá Texas í Bandaríkjunum sem festist með kattarfilter á fjarfundi á Zoom segist undrandi á því hversu mikla athygli málið hefur fengið.
Skondið myndband af þessum tæknilegu örðugleikum hefur verið skoðað yfir tveimur milljón sinnum á netinu.
„Ég vissi ekki að Zoom gæti breytt mér í kött. Ég vissi ekki að kattar-Zoom gæti breytt mér í fræga manneskju á netinu en allt þetta gerðist á nokkrum klukkustundum,“ sagði lögmaðurinn Rod Ponton við BBC.
Hann sagðist hafa verið að nota tölvu ritara síns þegar filterinn birtist. Í stað andlits hans sást allt í einu hvítur kettlingur með stór og áhyggjufull augu. Á meðan aðstoðarmaður hans reyndi að lagfæra vandamálið heyrðist Ponton segja: „Ég er hérna í beinni, ég er ekki köttur.“
„Þegar ég var mættur á Zoom virtist allt í góðu lagi. Myndin af mér kom upp og ég var í biðherberginu með dómaranum. En þegar dómarinn kallaði upp málið þá hvarf ég og köttur birtist í staðinn fyrir mig. Auðvitað kom það mér mjög á óvart,“ sagði hann.
Dómarinn Roy Ferguson deildi myndbandinu á samfélagsmiðlum og hvatti fólk til að slökkva á filterum áður en það tekur þátt í réttarhöldum á netinu.
Ponton bætti þessu við um málið: „Í Texas notum við frasann um að þú getur ekki sett tannkremið aftur í túbuna. Ef þessu var ætlað að fara eins og eldur í sinu um netið ákvað ég bara að hlæja að sjálfum mér rétt eins og allir hinir.“