Heilbrigðisstofnun Noregs vekur máls á því í tillögum til ríkisstjórnarinnar um sóttvarnaaðgerðir næstu mánaða, að banna utanlandsferðir á meðan ástand sóttvarnamála er tvísýnt, svo sem hvað snertir stökkbreytt afbrigði kórónuveirunnar, annað kennt við Bretland og hitt Suður-Afríku.
Kom þetta fram á blaðamannafundi norsku ríkisstjórnarinnar í dag um næstu skref í sóttvarnamálum, þar sem enn fremur var tilkynnt um framlengingu landamæralokunar til febrúarloka.
„Tuttugasta og níunda janúar lokuðum við landamærunum fyrir öllum sem ekki eru búsettir í Noregi,“ sagði Monica Mæland dómsmálaráðherra a fundinum, „þetta hefur miklar afleiðingar fyrir margar fjölskyldur og einstaklinga sem ekki fá að hitta sína nánustu. [...] Samtímis stöndum við frammi fyrir aðstæðum þar sem stökkbreytt veiruafbrigði smita fleiri og smita hraðar. Við verðum að ná stjórn á þessu og takmarka smit sem mest má vera.“
Í kjölfar þess rökstuðnings tilkynnti Mæland um framlenginguna til mánaðamóta auk þess sem hún boðaði nýjar reglur varðandi sóttkvíarhúsnæði þeirra sem til Noregs koma vegna vinnu, en þeir njóta undanþágu frá landamæralokuninni.
Komið hafi í ljós að húsnæði sem vinnuveitendur leggja fram sem sóttkvíaraðstöðu fyrir starfsfólk sitt hafi í mörgum tilfellum ekki reynst uppfylla kröfur um slíka aðstöðu. Því sé samþykki sóttkvíarhúsnæðis á vegum vinnuveitenda hér eftir háð skoðun sem fara skuli fram áður en það er tekið í notkun.
Bjørn Guldvog, forstöðumaður Heilbrigðisstofnunar Noregs, hvatti fólk til að reyna að sjá vonarglætu í ástandinu, eftir 100 til 150 daga yrði allt breytt, en þangað til yrðu landsmenn að búa sig undir að lifa áfram við miklar takmarkanir daglegs lífs. Kvaðst hann reikna með að Norðmenn kæmust á lygnan sjó í sumar eða haust.
Samkvæmt tölum Lýðheilsustofnunar Noregs, FHI, hafa nú 436 tilfelli breska afbrigðis kórónuveirunnar, B.1.1.7, greinst í landinu og tíu tilfelli þess suðurafríska.
„Veiran frá Suður-Afríku gæti verið enn smitgjarnari en [sú breska] og hætt er við að afbrigðið frá Brasilíu valdi alvarlegri veikindum,“ sagði Guldvog.
Greindi hann að lokum frá því, að í síðustu tillögum sínum til ríkisstjórnarinnar hafi Heilbrigðisstofnun vakið máls á að leggja bann við frístundautanlandsferðum um tíma. Líti stofnunin þar einkum til Belgíu þar sem slíkt bann hafi verið tekið upp.
„Til að draga enn frekar úr fjölda þeirra sem fara yfir landamærin er þetta eitthvað sem einnig mætti íhuga gagnvart norskum borgurum. Smithættan eykst í hlutfalli við þann fjölda sem ferðast inn og út úr landinu,“ sagði forstöðumaðurinn.
Þá tók Bent Høie heilbrigðisráðherra til máls á fundinum og bað Norðmenn þess lengst allra orða að fara ekki út úr Noregi í vetrarfríinu sem nú stendur fyrir dyrum, ríkisstjórnin legði fram nánari ráðleggingar varðandi vetrarfrí og ferðalög á blaðamannafundi á föstudaginn.
Line Vold, deildarstjóri hjá FHI, ávarpaði samkomuna einnig og kvað það eindregin tilmæli hennar stofnunar, að þær sóttvarnaráðstafanir sem gilt hafi um allan Noreg frá því síðari hluta janúarmánaðar gildi áfram að minnsta kosti um tveggja vikna skeið. Markmiðið sé að slaka á þeim reglum ef ekki sígur frekar á ógæfuhliðina.
„Einkum viljum við geta slakað á reglum hvað börn og ungmenni snertir svo fljótt sem verða má. Við höfum áhyggjur af þeim afleiðingum sem ástandið hefur á þau,“ sagði Vold að lokum.