14 handteknir vegna hryðjuverkagruns

Þremenningarnir sem ætlunin var að handtaka í Þýskalandi eru grunaðir …
Þremenningarnir sem ætlunin var að handtaka í Þýskalandi eru grunaðir um að hafa fest kaup á hráefni til sprengjugerðar í janúar. Einn þeirra var handtekinn í Þýskalandi en tveir voru meðal þeirra 13 sem danska lögreglan handtók á Sjálandi um helgina og fundust efnin í Þýskalandi og Danmörku. Ljósmynd/Danska lögreglan

Lögregla í Danmörku og Þýskalandi hefur handtekið 14 manns, 13 í Danmörku og einn í Þýskalandi, sem liggja undir grun um að leggja á ráðin um hryðjuverk. Af fjórtánmenningunum eru sjö sérstaklega grunaðir um að hafa ráðgert hryðjuverk á danskri grundu.

Handtökurnar í Danmörku áttu sér stað á Sjálandi tímabilið frá laugardegi til mánudags, að sögn PET, leyniþjónustu dönsku lögreglunnar, sem greinir frá því í fréttatilkynningu að sexmenningarnir, sem ekki eru grunaðir um beina aðild að ráðabrugginu, liggi undir grun fyrir samverknað og fór lögregla fram á það við héraðsdómara í Holbæk í dag að þeir yrðu úrskurðaðir í gæsluvarðhald.

Höfðu úrræði til að láta til skarar skríða

PET kveðst líta málið alvarlegum augum, grunuðu hafi verið búnir að útvega sér vopn auk hráefna til sprengiefnagerðar. „Við teljum að um sé að ræða aðila sem gekk til ætlunar, og höfðu úrræði til, að gera hryðjuverkaárás í Danmörku,“ segir í fréttatilkynningunni.

Danska lögreglan hefur unnið að rannsókn málsins í samstarfi við lögreglu í Þýskalandi sem einnig hefur tjáð sig um málið þar, meðal annars við þýska dagblaðið Volksstimme sem greinir frá því að gefin hafi verið út handtökuskipun í Naumburg til höfuðs þriggja manna af sýrlensku bergi brotnum. Einn þeirra hafi verið tekinn í Þýskalandi, en hinir tveir séu meðal þeirra 13 sem handteknir voru í Danmörku.

Efni til sprengjugerðar

Að sögn Klaus Tewes hjá embætti saksóknara í Naumburg eru þremenningarnir grunaðir um að hafa í janúar fest kaup á nokkrum kílógrömmum af efnum sem nota megi til framleiðslu sprengiefna, en lögregla fann efnin og lagði hald á þau í tvenni lagi, í íbúð í Dessau í Þýskalandi og á Sjálandi í Danmörku.

Þýska dagblaðið Der Spiegel greinir enn fremur frá því að fáni með merki hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams hafi fundist í íbúðinni í Dessau. PET hefur boðað til blaðamannafundar um málið á morgun, föstudag.

DR

Ekstra Bladet

Jyllands-Posten

Volksstimme

Der Spiegel

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert