Stjórnvöld í Kína hafa bannað breska ríkissjónvarpinu að útvarpa og sjónvarpa alþjóðlegum stöðvum sínum, BBC World News, í landinu. Þetta var tilkynnt á fimmtudag. BBC hefur lýst yfir vonbrigðum með ákvörðunina.
Kínverjar hafa gagnrýnt BBC fyrir umfjöllun þess um kórónuveirufaraldurinn og ofsóknir gegn úígúra-múslimum, sem mannréttindasamtök hafa lýst sem þjóðarmorðum.
Ákvörðunin er tekin eftir að breska fjölmiðlanefndin Ofcom felldi úr gildi leyfi kínversku ríkissjónvarpsstöðvarinnar CGTN til að starfa í Bretlandi. Nefndin hafði komist að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið gegn breskum fjölmiðlalögunum þegar stöðin útvarpaði meintri þvingaðri játningu Bretans Peter Humphrey í fyrra. Bresk fjölmiðlalög eru strangari en gengur og gerist á Vesturlöndum, en meðal annars er gerð krafa um að fréttir í útvarpi og sjónvarpi séu hlutlausar – þótt sú regla gildi heldur betur ekki um dagblöð.
Kínverjar rökstyðja hins vegar sína ákvörðun með vísan til laga um að fréttir verði að vera „sannar og sanngjarnar“ og megi ekki „skaða þjóðarhagsmuni Kína“. BBC hafi brotið gegn því og fái því ekki að endurnýja útvarps- og sjónvarpsleyfi sitt.
Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands, segir ákvörðunina „óásættanlega takmörkun á fjölmiðlafrelsi“. Orðspor Kína muni aðeins laskast vegna þessa.
Útbreiðsla miðlar BBC í Kína hefur hingað til verið takmörkuð til muna og aðeins útvöldum, svo sem alþjóðlegum hótelum og erindrekum erlendra ríkja, verið heimilt að neyta efnisins. Því verður lítil breyting á högum hins almenna Kínverja við breytinguna.