Efstur þrátt fyrir glappaskot og gagnrýni

Andrew Yang í kappræðum í Iowa fyrir forvalið í fyrra.
Andrew Yang í kappræðum í Iowa fyrir forvalið í fyrra. AFP

Andrew Yang, fyrrverandi frambjóðandi í forvali demókrata fyrir forsetakosningarnar á síðasta ári, hefur nú forystu í skoðanakönnunum um forval flokksins fyrir kosningar um borgarstjóraembætti New York.

Yang þykir hafa skyggt mikið á keppinauta sína undanfarnar vikur, sem hafa margir haldið viðburði fyrir stuðningsmenn sína yfir vefinn á sama tíma og hann hefur farið sem stormsveipur um stræti borgarinnar.

Í niðurstöðum nýlegrar könnunar kemur fram að 84% þeirra sem voru spurðir þekktu Yang þegar. 28% aðspurðra sögðust þá hallast mest að því að kjósa hann.

Næst á eftir honum kemur Eric Adams, forseti hverfisráðs Brooklyn, með 17% stuðning. Sextíu prósent aðspurðra sögðust hafa heyrt á hann minnst. Scott Stringer, yfirendurskoðandi borgarinnar, nýtur þá 13% stuðnings en 66% sögðust kannast við nafnið hans.

Enn er þó langur tímur til stefnu, en forvalið verður haldið í lok júní.

Yfirgaf borgina og oft ekki kosið

Þessum árangri hefur Yang náð þrátt fyrir fjölda mistaka, árásir frá öðrum frambjóðendum og blaðagreinar um eitrað andrúmsloft innan forsetaframboðshópsins hans.

Um það leyti sem hann hrinti af stað framboði til borgarstjóra í síðasta mánuði varpaði Politico ljósi á að hann hefði yfirgefið borgina þegar faraldurinn náði hámarki og varið miklum tíma norðar í ríkinu.

Þá hlaut hann mikla gagnrýni þegar hann útskýrði þennan flutning í samtali við New York Times: „Geturðu ímyndað þér að reyna að hafa tvo krakka í fjarkennslu í þriggja herbergja íbúð, og svo reyna sjálfur að vinna?“

Hann þótti heldur ekki vera með skilgreiningu svokallaðra „bodega“, smábúða sem eru á víð og dreif í þúsundatali um borgina, fyllilega á hreinu.

Sú staðreynd að hann hefur ekki kosið í mörgum af fyrri kosningum til borgarstjóra í borginni hefur svo vakið spurningar hjá mótframbjóðendum sem efast um hversu ósvikinn Yang er sem íbúi New York-borgar.

Yang mun ekki alltaf halda sig við handritið, segir framboðsstjórinn.
Yang mun ekki alltaf halda sig við handritið, segir framboðsstjórinn. AFP

„Andrew er ekta“

„Við erum alltaf þarna úti,“ segir framboðsstjórinn Chris Coffey í samtali við Politico.

„Andrew er ekta og hann er ekki atvinnustjórnmálamaður. Og það þýðir að hann mun ekki alltaf halda sig við handritið.“

Og ferðalaginu fylgja hættur. Frambjóðandinn greindist sjálfur með kórónuveiruna í byrjun febrúar. Ekki er þó vitað til þess að alvarleg einkenni sjúkdómsins hafi látið á sér bera.

En þar sem hlutfallslega fáir borgarbúar fylgjast enn sem komið er með framvindu forvalsins þá er ólíklegt að ofangreind atriði, og fleiri, hafi vakið athygli þeirra, að sögn stjórnmálaskýrenda Politico.

Ráðgjafinn Lis Smith, sem er þaulreynd í stjórnmálum borgarinnar og starfaði síðast sem einn helsti ráðgjafi forsetaframbjóðandans Pete Buttigieg, segir stóran mun á því sem notendur Twitter hneykslast á annars vegar og því sem íbúar borgarinnar raunverulega taka mið af.

„Forvalið mun ráðast af faraldrinum og málum sem varða efnahaginn og almannaöryggi, ekki rökræðum um hvað getur talist bodega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert