Fær eftirlætiskökuna á 117 ára afmælisdaginn

Elsti Evrópubúinn, franska nunnan systir André, er 117 ára í dag. Systir André, sem var skírð Lucile Randon, fæddist 11. febrúar árið 1904. Afmælisdeginum er fagnað með eftirlætiseftirrétti hennar, l'omelette norvégienne.

André er nýlega laus undan Covid-19 en hún sagði í samtali við AFP-fréttastofuna skömmu fyrir afmælið að hún hefði ekki gert sér grein fyrir því að hafa fengið kórónuveiruna. Alls smitaðist 81 íbúi á hjúkrunarheimilinu sem hún dvelur á í Toulon og létust tíu þeirra. „Mér er sagt að ég hafi fengið veiruna. Ég var mjög þreytt, það er alveg rétt en ég áttaði mig ekki á því.“

Systir André, Lucile Randon, er 117 ára í dag.
Systir André, Lucile Randon, er 117 ára í dag. AFP

Talsmaður hjúkrunarheimilis Sainte-Catherine-Labouré, David Tavella, segir að André hafi neyðst til þess að vera innilokuð í herbergi sínu án heimsóknar vegna veirunnar. Afmæli hennar hressi því alla við á heimilinu.

Fær sér vínglas á hverjum degi

Sjálf var André ekki búin að skipuleggja neitt en heimilið hefur aftur á móti undirbúið daginn fyrir hana og aðra íbúa. Sérstök messa verður haldin á hjúkrunarheimilinu og svo verður blásið til veislu þar sem foie gras er í forrétt, fylltur hani með porcini-sveppum og eftirlæti afmælisbarnsins, kakan góða l’omelette norvégienne, sem verður skolað niður með glasi af púrtvíni. Aftur á móti er humar eftirlætismatur André og ekki spillir fyrir að drekka vínglas með. „Ég drekk lítið glas af víni á hverjum degi,“ segir hún. 

André er fædd í Ales og fjölskyldan var mótmælendatrúar. Hún er alin upp þar ásamt þremur bræðrum. Ein elsta minning hennar er þegar tveir bræður hennar sneru aftur heim eftir að hafa barist í fyrri heimsstyrjöldinni. 

Hún snerist til kaþólsku er hún var 26 ára og gekk til liðs við Filles de la Charité er hún var 41 árs. Hún starfaði á sjúkrahúsi í Vichy í 31 ár og síðan dvaldi hún í 30 ár á hjúkrunarheimili í frönsku Ölpunum áður en hún flutti til Toulon. 

Omelette norvégienne.
Omelette norvégienne. Skjáskot af vef meilleurduchef.com

Hún er næstelsta manneskja heims samkvæmt upplýsingum Gerontology Research Group, elst er japanska konan Kane Tanaka sem er 118 ára.

Þegar fréttamaður AFP biður hana um að ávarpa ungt fólk í heiminum svarar André: Verið hugrökk og sýnið samkennd.

Systir André nýtur sólarinnar í garði hjúkrunarheimilisins í Toulon.
Systir André nýtur sólarinnar í garði hjúkrunarheimilisins í Toulon. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert