Frakkar vilja leggja niður innanlandsflug í miklum mæli og það er ekki vegna Covid-19, heldur búa umhverfissjónarmið að baki áformunum.
Flug sem eru til dæmis frá París til Lyon eða Bordeaux eiga þannig senn að heyra sögunni til. Markmiðið er að þurrka út innanlandsflug, þar sem ferðin gæti verið farin í lest á innan við tveimur og hálfum klukkustundum.
Hér má lesa umfjöllun FAZ um málið.
Franska ríkisstjórnin hyggst með þessu nýta tækifærið – eða skáka í skjólinu – sem fæst með ferðalægðinni í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Í gær samþykkti þingið ráðstafanir sem fela það í sér að frá og með næsta sumri eru þessi stuttu innanlandsflug bönnuð Frökkum.
Til viðbótar við flugbannið tilkynnti umhverfisráðherra Frakka um það í dag að áformum um byggingu fjórðu flugstöðvarbyggingarinnar á Charles de Gaulle-flugvelli í París væri hér með aflýst.
Með þessu öllu er hugsunin að minnka flugumferð verulega og auka því sem nemur lestarumferð í landinu.