Hættir byggingu múrsins

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna. AFP

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur fellt út gildi tilskipun forvera síns Donalds Trumps um neyðarástand við landamæri Bandaríkjanna að Mexíkó. Þá tilskipun hafði Trump notað árið 2019 til að veita fé til byggingar landamæramúrs án þess að þingið hefði samþykkt fjárveitinguna.

Í bréfi til þingsins á fimmtudag segir Biden að tilskipun Trumps hafi verið „ástæðulaus“ og að engu fé verði varið í byggingu múrsins hér eftir.

Um 25 milljörðum bandaríkjadala (3.200 ma.kr.) var veitt í verkefnið í embættistíð Trumps, en múrinn á landamærunum að Mexíkó var eitt af helstu kosningaloforðum Trumps fyrir kosningarnar 2016 en hann hafði ítrekað heitið því að Mexíkó myndi borga fyrir hann. Svo fór þó ekki, en fjárveitingar til bandaríska hersins voru þess í stað nýttar.

Um 130 kílómetrar af mismunandi tegundum af girðingum og múrum risu við landamærin fyrir tilstilli Trumps, auk þess sem varnir voru hertar á um 650 kílómetra kafla. Þegar voru girðingar á um 1.000 kílómetra kafla á landamærunum áður en Trump tók við embætti, en landamæri ríkjanna eru um 3.140 kílómetrar að lengd.

Unnið að uppsetningu girðingar í Nýju-Mexíkó í Bandaríkjunum.
Unnið að uppsetningu girðingar í Nýju-Mexíkó í Bandaríkjunum. AFP

Ákvörðun Bidens er enn eitt skrefið í áformum hans um að vinda ofan af verkum forvera síns. Í síðustu viku skrifaði Biden undir forsetatilskipun sem ætlað er að auðvelda fjölskyldum á flótta að sameinast á ný.

Ekki verður þó hróflað við öllum þáttum landamærastefnu Trumps. Á blaðamannafundi í Hvíta húsinu á miðvikudag staðfesti Jen Psaki, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, að reglur sem heimila landamæravörðum að vísa óskráðum innflytjendum tafarlaust frá landamærum vegna kórónuveirunnar, yrðu enn í gildi.

„Vegna kórónuveirufaraldursins og þeirrar staðreyndar að við höfum ekki haft tíma til að koma á mannúðlegu, alhliða kerfi sem tekur við fólki sem kemur að landamærunum, er ekki rétti tíminn núna fyrir fólk að koma. Miklum meirihluta fólks verður vísað frá,“ sagði Psaki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert