Hefðu getað komið í veg fyrir 40% dauðsfalla

Mikill fjöldi fólks hefur látist vegna Covid-19 í Bandaríkjunum.
Mikill fjöldi fólks hefur látist vegna Covid-19 í Bandaríkjunum. AFP

Bandaríkin hefðu getað komið í veg fyrir 40% dauðsfalla af völdum Covid-19, samkvæmt nefnd læknisfræðitímaritsins Lancet sem var falið að leggja mat á stefnu Donalds Trumps fyrrverandi Bandaríkjaforseta í heilbrigðismálum. Nefndin komst þó að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að kenna forsetanum fyrrverandi alfarið um stöðuna.

Guardian greinir frá þessu.

Í viðleitni sinni til að ákvarða hversu mörg dauðsföll Bandaríkjamenn hefðu getað komið í veg fyrir miðaði umrædd nefnd við meðaldánartíðni í öðrum G7-löndum, Kanada, Frakklandi, Þýskalandi, Japan og Bretlandi. 

Ekki hægt að laga samfélagsbresti með bólusetningu

Tæplega 470.000 Bandaríkjamenn hafa fallið frá vegna Covid-19. Talið er líklegt að sú tala muni hækka á næstu vikum og verða hærri en 500.000. Um 27 milljónir hafa smitast af kórónuveirunni í Bandaríkjunum. Hvergi annars staðar hafa jafn margir fallið frá og smitast í faraldrinum.

Nefndin fordæmdi viðbröð Trumps við Covid en lagði áherslu á að landið hefði farið inn í faraldurinn með slappa innviði í heilbrigðismálum. Á milli ársins 2002 og 2019 lækkuðu framlög ríkisins til heilbrigðismála úr 3,21% af útgjöldum ríkisins í 2,45%. Bæði Bretland og Kanada leggja helmingi hærra hlutfall útgjalda ríkisins í heilbrigðismál. 

Mary T. Bassett, sem sat í nefndinni, sagði í samtali við Guardian: „Bandaríkjunum hefur tekist mjög illa upp í baráttunni við faraldurinn. Það er þó ekki hægt að kenna Trump alfarið um það, þessum samfélagsbrestum er líka um að kenna og þeir verða ekki lagaðir með bólusetningu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert