Þremur Kúbverjum sem talið er að hafi strandað á lítilli eyðieyju á Bahamaeyjum í 33 daga hefur verið bjargað, að sögn bandarísku strandgæslunnar.
Flugmenn í hefðbundnu eftirlitsflugi komu auga á fólkið er það veifaði fána til að vekja á sér athygli. Þegar því var bjargað sagðist það aðallega hafa lifað á kókoshnetum.
Einn úr áhöfn strandgæslunnar sagðist við BBC vera stórundrandi á því hvernig fólkið fór að því að lifa af á eyjunni í svona langan tíma.
Áhöfn flugvélarinnar var ekki með búnað um borð fyrir björgunarleiðangur en lét þess í stað falla niður til fólksins mat, vatn og talstöð svo að hægt væri að koma á samskiptum.
„Því miður var enginn spænskumælandi um borð en með minni takmörkuðu spænskukunnáttu áttaði ég mig á því að þau voru frá Kúbu og þurftu á læknisaðstoð að halda. Þau lögðu áherslu á að þau hefðu verið á eyjunni í 33 daga,“ sagði Riley Beecher, úr áhöfninni.