Biden vill Assange framseldan

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna. AFP

Stjórnvöld í Bandaríkjunum freista þess enn að fá Julian Assange, stofnandi vefsíðunnar Wikileaks, framseldan til landsins. Assange er í haldi í Bretlandi að beiðni bandarískra stjórnvalda. Hann hafði áður dvalið í sendiráði Ekvador í Lundúnum frá 2012 og naut þar verndar.

Í upphafi árs ákvað dómari í Bretlandi að fallast ekki á framsalsbeiðni Bandaríkjastjórnar á þeim forsendum vegna andlegrar heilsu hans. Sagði dómarinn að ef Assange væri framseldur yrði honum líklegast haldið í einangrun við óboðlegar aðstæður fyrir mann í hans ástandi. Bandaríkjastjórn hefur nú áfrýjað úrskurðinum.

Í Bandaríkjunum stendur til að rétta yfir Assange vegna meintra njósna og innbrota í tölvukerfi bandaríska hersins, en hundruðum þúsunda blaðsíðna af gögnum bandaríska hersins og annarra ríkisstofnana var árið 2009 lekið á vef Wikileaks. Þar á meðal voru ýmis gögn um stríðsglæpi og mannréttindabrot Bandaríkjahers á erlendri grundu.

Julian Assange á svölum ekvadorska sendiráðsins í Lundúnum árið 2017.
Julian Assange á svölum ekvadorska sendiráðsins í Lundúnum árið 2017. AFP

Saksóknarar í Bandaríkjunum segja að Assange hafi hjálpað hernaðarsérfræðingnum Chelsea Manning að brjóta gegn bandarískum njósnalögum (Espionage Act) og að Assange hafi verið vitorðsmaður annarra hakkara sem deildu trúnaðargögnum og öðrum upplýsingum sem stenft gætu ríkinu í hættu. Lögmenn Assange segja hins vegar að réttarhöldin séu af pólitískum meiði og honum sé stefnt fyrir að hafa komið upp um stríðsglæpi Bandaríkjanna.

Féllst ekki á sjónarmið Assange

Þrátt fyrir að dómarinn í Bretlandi hafi úrskurðað Assange í vil í upphafi árs, þegar framsalsbeiðninni var hafnað, var það ekki gert á hans forsendum. Þvert á móti sagði dómarinn að hún hefði enga ástæðu til að ætla annað en að „hefbundin stjórnskipunarleg vernd“ myndi gilda um Assange ef hann færi fyrir dóm í landinu – með öðrum orðum að hann fengi sanngjarna málsmeðferð.

Að framselja hann væri því ekki brot á reglum um framsal sakborninga sem mega eiga von á pólitískum réttarhöldum. Þess í stað væri framsalsbeiðninni eingöngu hafnað vegna heilsu Assange og ótta um að hann tæki eigið líf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka