Búið er að bólusetja rúmlega 13,5 milljónir Breta við Covid-19 og nálgast því ört það markmið stjórnvalda um að bólusetja 15 milljónir fyrir miðjan febrúar. Þetta vekur vonir um að hægt verði að hefja afléttingu þeirra hafta sem eru í gildi vegna veirunnar.
Að meðaltali hafa rúmlega 432 þúsund Bretar verið bólusettir á dag undanfarið. Forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, hefur ýjað að því að fyrir loku vikunnar verði búið að bjóða öllum þeim sem eru í fjórum helstu forgangshópum landsins bólusetningu. Það er fólk sem er 70 ára og eldri, íbúar hjúkrunarheimila og framlínustarfsmenn.
Í Wales verður lokið við að bólusetja þessa hópa í dag en í Wales er búið að bólusetja tæplega 22% íbúa samanborið við 20,3% íbúa Englands, 19,2% Skota og 18,7% íbúa Norður-Írlands.
Næsta markmið ríkisstjórnarinnar er að allir þeir sem eru 50 ára og eldri og vilja láta bólusetja sig verði búnir að fá bólusetningu fyrir lok maí og búið verði að bjóða öllum fullorðnum bólusetningu fyrir lok september.
Fyrsti ráðherra Wales, Mark Drakeford, segir að velheppnuð bólusetningarherferð og fækkun nýrra smita gefi möguleika á að hægt verði að aflétta einhverjum sóttvarnareglum. Að í vor verði vonandi hægt að gera hluti sem allir sakni og þrái að gera að nýju.
Mjög hefur dregið úr nýjum smitum á Bretlandi undanfarnar vikur þannig að búið er að ná tökum á innlögnum á sjúkrahús og dauðsföllum fækkað. Margir vonast því til þess að útgöngubanninu verði aflétt í byrjun mars. Það er að hægt verði að leyfa fólki að fara til skóla, vinnu og opna verslanir að nýju.
Johnson hefur sagt að í næstu viku verði þetta skoðað og ákvörðun tekin um framhaldið á næstu vikum. Ráðherrar hafa verið samstíga í að það sé í algjörum forgangi að leyfa námsmönnum að mæta í skóla á nýjan leik.
Farsóttarfræðingurinn Neil Ferguson, sem er einn helsti vísindaráðgjafi ríkisstjórnarinnar, segir að staða Bretlands núna sé miklu betri en hann hefði getað ímyndað sér fyrir mánuði síðan.
Hann telur að mögulega verði hægt að opna grunnskóla í mars en varar við því að of hratt verði farið í aflétta takmörkunum að öðru leyti.