Búist við skjótri afgreiðslu lögmanna Trumps

Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti.
Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti. AFP

Lögmenn Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, hafa gefið í skyn að þeir muni aðeins nýta sér fjórar af þeim sextán klukkustundum sem þeir hafa úr að moða til að verja hann gegn ákæru fyrir embættisglöp.

Demókratar eyddu tveimur dögum í málflutning sinn. Þeir sýndu meðal annars myndbandsupptökur af ofbeldinu í þinghúsi Bandaríkjanna 6. janúar og sögðu að sýknudómur gæti orðið til þess að samskonar árás yrði gerð á þinghúsið.

Líklegt er að Trump verði sýknaður þar sem flestir repúblikanar virðast ætla að styðja við bakið á honum, að því er BBC greindi frá. Tveir þriðjuhlutar þeirra 100 þingmanna sem sitja í öldungadeild þingsins þurfa að greiða atkvæði með sakfellingu ef dæma á Trump fyrir embættisbrot.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagðist í viðtali við CNN vera spenntur að sjá hvernig repúblikanar munu greiða atkvæði í málinu. 

Trump verður ekki viðstaddur réttarhöldin í dag og mun því ekki bera vitni. Ef hann verður fundinn sekur getur öldungadeildin greitt atkvæði um hvort honum verði meinað að verða forseti á nýjan leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka