Missti fimm ástvini úr Covid-19

Frá bólusetningu gegn Covid-19. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum …
Frá bólusetningu gegn Covid-19. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. AFP

Christine Lloyd-Jones var í vinnunni þegar hún fékk fyrsta símtalið. Anette vinkona hennar, sem var 62 ára gömul, var látin úr Covid-19. Næsta dag sat Lloyd-Jones við morgunverðarborðið þegar síminn hennar hringdi aftur. Í þetta sinn fékk hún fregnir af andláti annars vinar síns, Lloyd sem var látinn úr Covid-19, 58 ára gamall. Næsta dag kom annað símtal. Haydon vinur hennar, 51 árs, var á spítala vegna Covid-19. Hann lést næsta dag.

Á fimm dögum missti Lloyd-Jones því þrjá ástvini úr Covid-19.

Mánuður er liðinn síðan áföllin dundu yfir og er Lloyd-Jones, sem starfar sem stjórnandi í félagsþjónustu, nú orðin áberandi í samfélagsumræðunni í Bretlandi, þar sem hún býr. Hún hefur gert það að sérstöku markmiði að hvetja alla sem hún þekkir, sérstaklega fólk í minnihlutahópum til þess að láta bólusetja sig svo hún þurfi ekki að kveðja annan ástvin vegna Covid-19. 

Á síðasta ári missti Lloyd-Jones frænda sinn úr Covid-19 og aðra vinkonu sína, hana Paulette. Því hefur hún alls misst fimm ástvini úr Covid-19.

„Verðum að gera eitthvað til þess að stöðva þennan missi“

CNN tók viðtal við Jones vegna þessa í umfjöllun um mýtur um Covid-19 innan minnihlutahópa.

„Ég hef velt því mikið fyrir mér hvort ég eigi að skrifa þessi skilaboð en ég hef ákveðið að þetta sé það sem ég verð að gera sem 59 ára gömul svört kona,“ skrifaði Lloyd Jones til allra í WhatsApp-tengiliðaskránni sinni. 

„Ég tel að við verðum að gera eitthvað til þess að stöðva þennan missi. Ég hef ákveðið að fara í bólusetningu við Covid-19. Þetta var ein erfiðasta ákvörðun sem ég hef tekið á ævinni.“

Mynd frá spítala þar sem Covid-19 sjúklingar eru inniliggjandi.
Mynd frá spítala þar sem Covid-19 sjúklingar eru inniliggjandi. AFP

72% sögðu ólíklegt að þeir myndu þiggja bólusetningu

Lloyd-Jones er alls ekki eina svarta manneskjan í bresku samfélagi sem er efins um að koma af stað umræðu um bólusetningu við Covid-19. Í skýrslu sem UK Household Longitudinal Study sendi frá sér fyrr á þessu ári kom í ljós að 72% svartra breska svarenda sögðu ólíklegt eða mjög ólíklegt að þeir myndu láta bólusetja sig gegn Covid-19. Þá sögðust Bretar í pakistönskum samfélögum og samfélögum þeirra frá Bangladesh hikandi, 42% þeirra sögðust ólíklega eða mjög ólíklega þiggja bólusetningu við Covid-19. 

Skýrslan var birt í nóvember, áður en bóluefni fengu samþykkt og er talið líklegt að fleiri innan umræddra samfélaga vilji þiggja bólusetningu í dag en þá. Enn er þó talið að fólk úr minnihlutahópum í Bretlandi sé ólíklegra til að þiggja bólusetningu en hvítt fólk sem er ekki í minnihlutahópum.

Mun hærri dánartíðni

Frá upphafi hefur verið ljóst að Covid-19 hefur haft meiri áhrif á fólk úr minnihlutahópum. Samkvæmt nýjustu skýrslu bresku hagstofunnar frá október síðastliðnum var dánartíðni svartra karlmanna í Englandi og Wales vegna Covid-19 sú hæsta og 2,7 sinnum hærri en á meðal hvítra karlmanna. Dánartíðni á meðal svartra kvenna með karabískan bakgrunn var þá tvöfalt hærri en á meðal hvítra kvenna í Englandi og Wales. 

Kamlesh Khunti, sérfræðingur í heilbrigðismálum minnihlutahópa hjá háskólanum í Leicester telur að þrátt fyrir hærri dánartíðni hafi efasemdir um bólusetningar gegn Covid-19 í minnihlutahópum hafi verið fyrirsjáanleg. 

„Við hefðum átt að búa okkur undir þetta þar sem við höfum séð litla þátttöku í flensubólusetningum innan minnihlutahópa,“ sagði Khunti í samtali við CNN. „Fólk hefur áhyggjur af innihaldi bóluefnisins vegna trúarskoðana og menningar.“

Nýlendustefna og þrælahald rót vandans

Khunti segir að heilbrigðisyfirvöld hafi ekki gert nægilega mikið til þess að koma upplýsingum um bólusetningar áleiðis til minnihlutahópa. Þannig vanti til dæmis upplýsingar á þeim tungumálum sem töluð eru innan minnihlutahópa Bretlands. 

Aðrir sérfræðingar segja að efasemdir um bólusetningu gegn Covid-19 sé tilkomin vegna skorts á trausti á ríkisreknum heilbrigðisstofnunum. Rót vantraustsins má rekja til nýlendustefnu og þrælahalds.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert