Segir að Trump geti ekki boðið sig aftur fram

Nikki Haley.
Nikki Haley. AFP

Donald Trump getur ekki boðið sig aftur fram til forsetaembættis í Bandaríkjunum og repúblikanar hefðu ekki átt að styðja herferð hans um að snúa við úrslitum forsetakosninganna.

Þetta sagði Nikki Haley, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum og stuðningsmaður hans til langs tíma, í viðtali við tímaritið Politico.

Þar segist henni hafa „brugðið mikið“ vegna hegðunar Trumps eftir að hann tapaði fyrir Joe Biden í forsetakosningunum.

„Hann mun ekki sækjast eftir embætti aftur,“ sagði Haley. „Ég held að hann verði ekki inni í myndinni. Hann hefur fallið of langt niður.“

Hún gagnrýndi repúblikanaflokkinn fyrir að styðja baráttu Trumps um að snúa kosningaúrslitunum við. Hún leiddi til þess að stuðningsmenn forsetans ruddust inn í bandaríska þinghúsið.

„Við verðum að viðurkenna að hann olli okkur vonbrigðum,“ sagði hún.

„Hann fetaði slóð sem hann hefði ekki átt að feta og við hefðum ekki átt að elta hann og við hefðum ekki átt að hlusta á hann,“ sagði hún. „Við megum ekki láta slíkt gerast aftur.“

Hún staðfesti einnig að hún sé að íhuga forsetaframboð árið 2024.

Ef Trump verður fund­inn sek­ur í réttarhöldum á Bandaríkjaþingi get­ur öld­unga­deild­in greitt at­kvæði um hvort hon­um verði meinað að verða for­seti á nýj­an leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert