Þekktur framleiðandi sjónvarpsefnis í Frakklandi, sem er til rannsóknar fyrir barnaníð, heldur því fram að hann sé fórnarlamb samsæris af hálfu frænda hans sem hafi reynt að kúga út úr honum fé.
„Ég er ekki níðingur!“ segir Gérard Louvin í samtali við dagblaðið Nice-Matin í dag en þetta er það fyrsta sem kemur frá honum opinberlega um málið.
Á þriðjudag greindu saksóknarar frá því að rannsókn væri hafin á því hvort Louvin hefði nauðgað og átt aðild að öðrum nauðgunum á 15 ára gömlum dreng. Louvin hefur ásamt eiginmanni sínum, Daniel Moyne, framleitt marga af vinsælustu sjónvarpsþáttunum í Frakklandi undanfarinn áratug.
Rannsókn hófst á málinu í síðasta mánuði eftir að frændi Louvin, Olivier A., kærði Louvin fyrir kynferðislegt ofbeldi sem hefði átt sér stað þegar hann var 15 ára. Tvær aðrar kærur hafa einnig borist til saksóknara þar sem Louvin er sakaður um að hafa átt hlutdeild í nauðgunum.
Louvin segir að eina kæran sem beinist beint að honum sé af hálfu frænda hans sem hafi krafið hann um 700 þúsund evrur. Allt sé þetta runnið undan rifjum systur hans, móður Olivier, sem hafi meðal annars skrifað hrollvekjur fyrir Louvin. Hann heldur því fram að eftir að hafa ættleitt dreng hafi systir hans og frændi áttað sig á að þau voru ekki lengur erfingjar hans og því gripið til þessa ráðs.
Olivier A., sem er 48 ára gamall í dag, sakar Louvin um að hafa hvatt eiginmann sinn, Moyne, til dáða þegar hann nauðgaði Olivier.
Lögmenn Louvin og Moyne neita öllum ásökunum og að þeir muni jafnframt leggja fram kæru vegna fjárkúgana.